Innlent

Kjör­að­stæður fyrir loft­mengun í stilltu veðri á gaml­árs­kvöld

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugeldar um áramót, þegar enginn kórónuveirufaraldur geisaði og halda mátti áramótabrennur.
Flugeldar um áramót, þegar enginn kórónuveirufaraldur geisaði og halda mátti áramótabrennur. Vilhelm/einkasafn

Búast má við köldu, stilltu og björtu veðri á öllu landinu á gamlárskvöld. Flugeldar munu því njóta sín vel en loftgæði verða líkast til mjög léleg.

Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að hæðarhryggur liggi upp yfir landinu og á gamlársdag, sem er á fimmtudag, verði fínasta vetrarveður um allt land. Samkvæmt spám muni létta til og lægja um kvöldið.

„En ókosturinn er í raun sá, sem gott er að benda á, að í svona veðri þegar er svona lítill vindur og stöðugt loft þá safnast loftmengunin saman þannig að það má búast við mjög lélegum loftgæðum í kjölfar flugeldanotkunar. Sem getur verið varasamt fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir því,“ segir Helga.

Þetta eigi sérstaklega við um þéttbýli, þar sem mest er skotið upp af fulgeldunum, en veðrið verði í raun eins um allt land.

Búast má við frosti á gamlárskvöld og mildast við vesturströndina. Þannig verði vægt frost í Reykjavík, á bilinu 0 til fimm stiga frost, en allt að tólf til fimmtán stiga frosti inn til landsins, að sögn Helgu.

Áramótin í ár verða með talsvert öðru sniði en undanfarið hjá landsmönnum sökum kórónuveirufaraldursins. Ekkert verður af áramótabrennum vegna samkomutakmarkanna og þá þarf fólk sömuleiðis að bíða með áramótapartíin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×