Innlent

Opnað á stað­nám í fram­halds­skóla með nýrri reglu­gerð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Framhaldsskólanemendur geta snúið aftur í skólann á ný eftir áramót.
Framhaldsskólanemendur geta snúið aftur í skólann á ný eftir áramót. Vísir/Vilhelm

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi á tímum gerir það að mörkum að mögulegt verður að bjóða upp á staðnám í öllum framhaldsskólum, einnig skólum með áfangakerfi.

 Á háskólastigi verður heimilt að hafa allt að 50 manns saman í rými en blöndun milli hópa er óheimil.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins þar sem segir að reglugerðin taki gildi 1. janúar næstkomandi og gildi til 28. febrúar.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

Leikskólar:

 Heimilt verður að hafa 20 starfsmenn saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra reglu innandyra ber þeim að nota grímur.

 Grunnskólar: 

Heimilt verður að hafa 20 starfsmenn saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra reglu innandyra ber þeim að nota grímur. Í sameiginlegum rýmum, m.a. mötuneytum verður heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun, að því gefnu að starfsfólk noti grímur. Þessar reglur gilda einnig um frístundaheimili, skipulagt íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarf og um störf í félagsmiðstöðvum. 

Framhaldsskólar:

 Heimilt verður að hafa samtals 30 nemendur og starfsmenn saman í rými. Blöndun nemenda milli hópa er heimil. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu ber nemendum og starfsfólki að nota grímu. Sömu reglur gilda um lýðskóla, ungmennahús og framhaldsfræðslu.

Háskólar:

 Heimilt verður að hafa samtals 50 nemendur og starfsmenn í hverju kennslu- eða lesrými. Blöndun milli nemendahópa er óheimil en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu ber nemendum og starfsfólki að nota grímu.

Tónlistarkennsla: 

Öll tónlistarkennsla barna á leik- og grunnskólaaldri er heimil samkvæmt sömu takmörkunum og gilda á hvoru skólastigi um sig. Um tónlistarkennslu eldri nemenda gilda sömu takmarkanir og í framhaldsskólum.

Á vef stjórnarráðsins segir einnig að reglugerðin taki mið af minnisblaði sóttvarnalæknis, sem lesa má hér. Þar kemur fram að tillögur hans séu settar fram með þeim fyrirvara að ástand faraldursins verði ekki verra við upphaf nýrrar annar en nú er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×