Fótbolti

Mark frá Aroni dugði ekki til í úr­slita­leiknum í Katar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Heimir Hallgrímsson lætur í sér heyra á hliðarlínunni í kvöld.
Heimir Hallgrímsson lætur í sér heyra á hliðarlínunni í kvöld. Simon Holmes/Getty Images

Íslendingalið Al Arabi í Katar beið lægri hlut gegn Al Sadd í bikarúrslitaleiknum í Katar í dag. Lokatölur urðu 2-1 er liðin mættust á Al Rayyan vellinum. Leikurinn var jafn framt opnunarleikur vallarins.

Gengi Al Arabi hefur ekki verið upp á marga fiska í deildinni en liðið er í neðri hluta deildarinnar. Það var því kjörið tækifæri að ná sér í bikar í dag og tryggja sér sæti í Meistaradeildinni í Asíu.

Það byrjaði ekki vel því strax á 2. mínútu leiksins kom Baghdad Bounedjah Al Sadd yfir. Stoðsendinguna gaf Santiago Cazorla, fyrrum leikmaður Arsenal og Villareal, til að mynda.

Stjóri Al Sadd er Xavi Hernandez, fyrrum leikmaður Barcelona, en hann þurfti að sætta sig við að Al Arabi jafnaði á 23. mínútu. Markið skoraði Aron Einar Gunnarsson. Í fyrstu var rangstaða dæmd en VARsjáin breytti dómnum en það kom eftir hornspyrnu.

Al Arabi fékk þó högg í andlitið skömmu fyrir leikhlé er Al Sadd komst aftur yfir. Aftur var það Baghdad sem kom þeim yfir og leiddu þeir 2-1 í hálfleik. Þrátt fyrir nokkur færi í síðari hálfleik náði Al Arabi ekki að jafna og lokatölur 2-1.

Aron Einar lék allan leikinn fyrir Al Arabi en Heimir Hallgrímsson er þjálfari liðsins. Aðstoðarmenn hans eru Freyr Alexandersson og Bjarki Már Ólafsson.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.