Innlent

Erlendir lögreglumenn geti haft lögregluvald á Íslandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Í frumvarpi sem dómsmálaráðherra hefur dreift á Alþingi um breytingar á lögreglulögum er meðal annars fjallað um heimildir til erlendra lögreglumanna til að beita lögregluvaldi á Íslandi að gefnu leyfi Ríkislögreglustjóra.
Í frumvarpi sem dómsmálaráðherra hefur dreift á Alþingi um breytingar á lögreglulögum er meðal annars fjallað um heimildir til erlendra lögreglumanna til að beita lögregluvaldi á Íslandi að gefnu leyfi Ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðherra segir erlendum lögreglumönnum ekki verða gefið ótakmarkað lögregluvald þótt þeir fái heimild til að sinna lögreglustörfum hér á landi samkvæmt nýju frumvarpi. Þingmaður Pírata lýsti áhyggjum af þessum fyrirhuguðu breytingum á lögreglulögum á Alþingi í morgun.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata vakti athygli á því í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun að í frumvarpi til breytinga á lögreglulögum gætu erlendir lögreglumenn sem hingað komi farið með lögregluvald á Íslandi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kallaði eftir nánari útskýringum á mögulegum valdheimildum erlendra lögreglumanna á Íslandi.Stöð 2/Baldur Hrafnkell

„Hvaða heimildir gætu þeir fengið? Hvaða rök standa að baki veitingu slíkra heimilda,“ spurði Þórhildur Sunna.

„Hér er um að ræða alþjóðlegt samstarf og atriði sem við þurfum að skýra gagnvart löndum í kringum okkur, þegar þarf en það hafi verið skipti milli lögregluyfirvalda milli landa. Komi þá að alþjóðlegri aðstoð. Þetta snýst um alþjóðlegt samstarf fyrst og fremst,“ sagði dómsmálaráðherra.

Þórhildur Sunna vildi hins vegar fá nánari útskýringar á því hvað fælist í því lögregluvaldi sem stæði til að gefa erlendum lögreglumönnum.

Dómsmálaráðherra segir ekki standa til að erlendir lögreglumenn geti komið hingað fyrirvaralaust og starfað með lögregluvaldi.Vísir/Vilhelm

Hvað geta þeir gert? Vegna þess að samkvæmt orðalaginu virðist mér það að minnsta kosti mögulegt að bandarískir alríkislögreglumenn gætu elt uppi íslenskan hakkara eða þýskir lögreglumenn gætu mætt með Sheffer hundana sína á seyðisfjarðarhöfn. Nú eða namebískir lögreglumenn gætu ráðist í húsleit og handtökur á Dalvík,“ sagði Þórhildur Sunna.

Dómsmálaráðherra sagði að kveðið væri á um að Ríkislögreglustjóri gæti heimilað að erlendir lögreglumenn sem kæmu hingað færu með lögregluvald og að dómsmálaráðherra væri heimilt að setja nánari reglur um slíkt samstarf.

„Þetta verður ekki með þeim hætti sem hv. þingmaður nefnir, að hér geti bara komið lögreglumenn og haft lögregluvald án þess að það sé nokkurs konar skýrt af íslenskum yfirvöldum,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×