Innlent

„Þetta er áhættutími“

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Almannavarnir

Sóttvarnalæknir segir stöðu faraldursins hér á landi ágæta en nú fari í hönd mikill áhættutími tengdur aðventunni. Fólk þurfi að passa sig vilji það ekki verja jólunum í veikindi

Fimm greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Þrír voru í sóttkví en tveir utan sóttkvíar. 1.200 sýni voru tekin í gær. Sjö greindust með veiruna á landamærunum, þar af voru fjórir með mótefni. 

Einn reyndist með virkt smit við fyrstu skimun á landamærum og einn við seinni skimun vegna komunnar til landsins. Alls eru 33 á sjúkrahúsi með covid-19 og þar af eru þrír á gjörgæslu.

„Þær eru ágætar þessar tölur, við fengum bakslag í fyrradag út af þessu klasasmiti eða hópsýkingu sem kom upp. Það er eitthvað sem getur alltaf gerst,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Sóttvarnalæknir segir að tekist hafi að ná utan um klasasmitið sem kom upp í vikunni. Hann vonar að fólk fari varlega á aðventunni.

„Ég vona bara svo sannarlega að fólk hafi þetta allt saman í huga sem við erum að hamra á alveg stöðugt að biðla fólk að passa sig. Ef fólk mun smitast núna mun það liggja í veikindum um jólin, fólk verður að fara rólega og varlega í þetta,“ segir Þórólfur.

„Ég veit að þetta er áhættutími, sama hvað við segjum eða gerum, það sem skiptir máli hvað fólk gerir, ég bara biðla áfram til fólks til að virkilega passa sig núna.“

Þórólfur segir að það yrði slæmt að missa faraldurinn úr böndunum nú þegar styttist í bóluefni. Hann segir engar líkur á að bóluefni verði tekið í notkun hér á landi fyrr en grænt ljós fæst frá Lyfjastofnun Evrópu sem hittist á fundi í síðasta lagi 29. desember. Hann telur mikinn meðbyr með bóluefninu í samfélaginu og mun sjálfur ekki hika við að láta bólusetja sig.

„Ég held að þetta sé eina sem við höfum jákvætt til að koma okkur út úr þessum Covid-faraldri. Við höfum ekki annað upp á að bjóða, nema að láta faraldurinn ganga yfir okkur með tilheyrandi afleiðingum,“ segir Þórólfur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×