Innlent

Reyndist dvelja ó­lög­lega í landinu og vistaður í fanga­klefa

Sylvía Hall skrifar
Lögregla hafði afskipti af fjölda ökumanna í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla hafði afskipti af fjölda ökumanna í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs. Einn ökumaður, sem stöðvaður var vegna fíkniefnaaksturs, reyndist dvelja ólöglega í landinu.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, sá fyrsti á áttunda tímanum í gærkvöldi. Var hann akandi í vesturbæ Reykjavíkur þegar lögregla stöðvaði hann. Rúmlega klukkustund síðar var svo annar ökumaður stöðvaður í Laugardal og reyndist sá einnig undir áhrifum fíkniefna og hafði jafnframt verið sviptur ökuréttindum.

Á tíunda tímanum var svo þriðji ökumaðurinn stöðvaður í miðbæ Reykjavíkur sem var einnig undir áhrifum fíkniefna. Samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu kom í kjölfarið í ljós að ökumaðurinn dvaldist ólöglega hér á landi og var hann vistaður í fangaklefa á meðan mál hans er til skoðunar.

Maðurinn var stöðvaður í miðbæ Reykjavíkur.Vísir/Vilhelm

Tvö umferðarslys urðu í gærkvöldi, það fyrra klukkan korter í níu í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Báðar bifreiðar voru óökufærar eftir áreksturinn og var einn fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið. Seinna óhappið var á tíunda tímanum í Hafnarfirði þar sem annar ökumaðurinn reyndist ölvaður, en engin slys urðu á fólki.

Skömmu eftir klukkan tíu var ökumaður stöðvaður á 137 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80, en sá var undir áhrifum áfengis. Um hálftíma síðar var annar ökumaður stöðvaður í Mosfellsbæ og reyndist sá verulega ölvaður við aksturinn.

Þá var sautján ára ökumaður stöðvaður í Kópavogi skömmu eftir miðnætti eftir að hafa keyrt á 145 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80.

Tvö innbrot á sömu klukkustund

Klukkan ellefu í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af fjórtán ára ungmennum í Grafarholti sem voru undir áhrifum áfengis. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var málið afgreitt með aðkomu foreldra og verður barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um málið.

Tveir voru handteknir á Seltjarnarnesi skömmu fyrir miðnætti vegna líkamsárásar. Báðir bíða skýrslutöku þegar af þeim rennur.

Einn var handtekinn í Efra-Breiðholti á öðrum tímanum í nótt vegna eignaspjalla. Sá var vistaður í fangaklefa vegna málsins.

Þá voru tvö innbrot í Háaleitis- og Bústaðahverfi á fjórða tímanum í nótt, annað í verslun og hitt í fyrirtæki. Talsverðum verðmætum var stolið úr versluninni og er málið til rannsóknar, en ekki liggur fyrir hverju var stolið í fyrirtækinu að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×