Innlent

Vor­misse­ris­um­sóknir 60 prósent fleiri en í fyrra

Atli Ísleifsson skrifar
Metfjöldi stundar nú nám við Háskóla Íslands eða tæplega 15.000 manns. Þeir verða fleiri á næsta ári.
Metfjöldi stundar nú nám við Háskóla Íslands eða tæplega 15.000 manns. Þeir verða fleiri á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Háskóla Íslands bárust hátt í 1.800 umsóknir um grunn- eða framhaldsnám fyrir komandi vormisseri og eru þær um 60 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum og segir að reikna megi með að um 16 þúsund nemendur verði í skólanum á næsta ári.

Háskóla Íslands bárust hátt í 1.800 umsóknir um grunn- eða framhaldsnám fyrir komandi vormisseri og eru þær um 60 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum og segir að reikna megi með að um 16 þúsund nemendur verði í skólanum á næsta ári.

„Háskóli Íslands hefur tekið inn nemendur í takmarkaðan hluta námsleiða í grunn- og framhaldsnámi á vormisseri ár hvert. Umsóknarfresti um grunnnám lauk 30. nóvember sl. og bárust skólanum alls 617 umsóknir. Það er um 50% fleiri umsóknir en á sama tíma í fyrra þegar þær voru 414.

Framlengdum umsóknarfresti um framhaldsnám lauk 31. október en þó var hægt að sækja um innritun í tilteknar námsleiðir til viðbótarnáms á meistarastigi til 30. nóvember. Nú liggur fyrir að samanlagður fjöldi umsókna á framhaldsstigi er tæplega 1.150 en hann var tæplega 680 í fyrra. Fjölgun umsókna í framhaldsnámi nemur því nærri 70% milli ára og heildarfjölgun umsókna um nám við skólann á vormisseri nærri 60% á milli ára sem fyrr segir. Tekið skal fram að inni í þessum tölum eru ekki umsóknir um doktorsnám.

Þessi mikli áhugi á námi við Háskóla Íslands kemur í kjölfar metfjölda umsókna sem skólanum barst í vor og helgast að líkindum af áhrifum kórónaveirunnar á íslenskt samfélag og atvinnulíf. Margir hafa kosið að sækja sér frekari menntun og efla þannig stöðu sína í því erfiða atvinnuástandi sem ríkir í landinu.

Metfjöldi stundar nú nám við Háskóla Íslands eða tæplega 15.000 manns. Miðað við þann fjölda umsókna sem Háskólanum barst fyrir vormisseri má reikna með að nemendafjöldi við skólann verði vel í kringum 16 þúsund á nýju ári,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×