Fótbolti

Lars hættur með Noreg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lars Lagerbäck stýrði norska landsliðinu í rúm þrjú ár.
Lars Lagerbäck stýrði norska landsliðinu í rúm þrjú ár. EPA-EFE/MANUEL BRUQUE

Lars Lagerbäck er hættur sem þjálfari norska karlalandsliðsins í fótbolta. Við starfi hans tekur Ståle Solbakken.

Lars var með samning við norska knattspyrnusambandið út undankeppni HM 2022. Norðmenn ákváðu hins vegar að skipta um þjálfara fyrst Solbakken var á lausu. Honum var sagt upp störfum hjá FC Köbenhavn í haust. 

Í fréttatilkynningu frá norska knattspyrnusambandinu segir að þjálfaraskiptin hafi verið gerð í fullu samráði við Lars og með þeim séu Norðmenn að horfa lengra fram á veginn en til HM 2022.

Lars tók við norska landsliðinu í febrúar 2017. Undir hans stjórn vann Noregur sinn riðil í Þjóðadeildinni 2018 og fór upp um 40 sæti á styrkleikalista FIFA. Lars stýrði Norðmönnum í 36 landsleikjum; átján þeirra unnust, níu enduðu með jafntefli og níu töpuðust.

Solbakken, sem er 52 ára, lékk 58 leiki og skoraði níu mörk fyrir norska landsliðið á árunum 1994-2000.

Hann hefur lengst af þjálfaraferilsins stýrt FCK en var sagt upp hjá danska félaginu í október. Solbakken gerði FCK átta sinnum að dönskum meisturum og fjórum sinnum að bikarmeisturum.

Solbakken tekur við norska landsliðinu 7. desember, sama dag og dregið verður í riðla í undankeppni HM 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×