Innlent

Bíll ölvaðs manns rann á lög­reglu­bíl

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði nokkurn fjölda ökumanna sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði nokkurn fjölda ökumanna sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Vísir/Vilhelm

Bíll ölvaðs manns rann á lögreglubíl í vesturbæ Reykjavíkur eftir að ökumaðurinn hafði sleppt því að ganga tryggilega frá bílnum þegar hann hafði verið stöðvaður af lögreglu og stigið út úr bílnum.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglu en atvikið átti sér stað í hverfi 107 skömmu eftir klukkan 22 í gærkvöldi.

Þar segir að ökumaðurinn hafi verið handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og færður í fangageymslu lögreglu.

Líkamsárás í Grafarvogi

Skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt um líkamsárás í Grafarvogi þar sem tveir menn höfðu ráðist á mann, barið hann í höfuðið með áhaldi og svo flúið af vettvangi. Sjúkralið var sent á vettvang en ekki var talin þörf á að færa manninn á sjúkrahús og er málið í rannsókn.

Um svipað leyti var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 109 þar sem ekið hafði verið á hús og ökumaður stungið af. Vitni var að óhappinu og er vitað um gerð og númer ökutækisins. Málið er í rannsókn.

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti einnig að hafa afskipti af fjölda fólks vegna gruns um akstur undir áhrifum ýmist áfengis og/eða fíkniefna.

Grunaður um brot á vopnalögum

Loks segir frá því að á þriðja tímanum voru afskipti höfð af manni í hverfi 105 vegna vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. 

Var maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð, en var sleppt að lokinni skýrslutöku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×