Innlent

Víð­tæk bilun í sím­kerfum og net­kerfum heilsu­gæslunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir bilunina vera mjög mikið mál, enda hægi hún á allri starfsemi.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir bilunina vera mjög mikið mál, enda hægi hún á allri starfsemi. Vísir/Vilhelm

Víðtæk bilun hefur verið í símkerfum og netkerfum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í allan dag. Bilunin hefur haft mikil áhrif á starfsemina og hefur neyðst til að fresta miklum fjölda tíma og verkefna.

Þetta staðfestir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Vísi.

„Þetta er búið að vera svona í allan dag og við erum búin að reyna að hökta í gegnum þetta. Þetta gengur hins vegar mjög illa, það er ekki hægt að segja annað.

Það eru allir í því að reyna að finna út hvað þetta er, en þetta virðist ekki einungis vera bundið við heilsugæsluna heldur eitthvað þar fyrir utan líka.“

Ekki hægt að afgreiða lyfseðla

Óskar segir bilunina vera mjög mikið mál, enda hægi hún á allri starfsemi. „Við getum til dæmis ekki afgreitt lyfseðla, þó að við séum með bráðaþjónustu.“

Skjáskot af heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Hann segir að bilunin valdi því að ekki sé mögulegt að leita í heilsuskrám, eiga í eðlilegum samskiptum við aðrar stofnanir og fleira.

Fjöldi verkefna sem frestast

Óskar segir að starfsmenn heilsugæslunnar reyni að nýta símann og afgreiða fólk þannig. Þetta líti hins vegar ekki vel út með daginn. „Það eru ótrúlega mörg verkefni sem frestast fram á næsta dag vegna þessa.“

Tölvudeild heilsugæslunnar og landlæknis og þjónustuaðilar vinna nú að því að leysa úr biluninni. Enn hefur þó ekki tekist að hafa uppi á henni.

Uppfært 14:04. Í tilkynningu til fjölmiðla frá heilsugæslunni kemur fram að svo virðist sem að kerfin séu að komast í lag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×