Innlent

„Neyðin kennir nöktum Bubba að spinna“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bubbi Morthens er ósáttur við fordóma gagnvart skrif- og lesblindum en biður fólk um að láta ekkert stoppa sig. 
Bubbi Morthens er ósáttur við fordóma gagnvart skrif- og lesblindum en biður fólk um að láta ekkert stoppa sig.  Vísir/Egill

Of miklir fordómar eru gagnvart skrifblindum í samfélaginu, segir Bubbi Morthens, sem hefur hafið sölu á listaverkum sem unnin eru út frá frumtextum á hans þekktustu lögum. Hann hvetur fólk til að óttast ekkert og leyfa náðargáfunni að skína.

Hugmyndin kom eftir að rykfallnir pappakassar fundust á háalofti Bubba, með fjöldanum öllum af ritverkum sem hann hefur skrifað í gegnum tíðina. Hann lýsir textunum sem skrifblindum, hráum og nöktum - vitnisburð um hugrekki í landi sem telur æðstu dyggð að skrifa rétt, líkt og hann sjálfur orðar það.

„Málið er orðið þannig að fólk er haldið málótta of fólk þorir ekki að skrifa. Og ef það er að tala þá er það svo hrætt um að gera einhver mistök, beygi einhverjar setningar vitlaust og það sem gerist er það að þú ert tekinn niður. Enn í dag ertu tekinn niður yfir því hvernig þú talar eða hvernig þú skrifar. Þetta er svo galið.“

Bubbi segist nánast daglega fá athugasemdir út á skrif sín á netinu. „Það er hópur þarna úti sem þorir ekki að skrifa, hefur verið að glíma við skrifblinduna og allt þetta. Ég segi bara: Stígið þið fram. Skapið. Verið óhrædd. Skrifið með hjartanu og við munum skilja ykkur.“

Hann viðurkennir að hann hefði líklega ekki farið út í þessa vinnu ef hann hefði fengið að sinna tónlistinni meira undanfarið ár, en verkin eru á til sölu á Facebook- síðu Bubba.

„Neyðin kennir nöktum Bubba að spinna. Það er bara svoleiðis!“

Hann hvetur fólk til að láta ekkert stoppa sig.

„Ég veit það er fólk þarna úti sem er stútfullt af hæfileikum og hefur ekki þorað að koma fram. Stígið fram. Skrifið, semjið. Geggjað.“

Lengri útgáfu af viðtalinu við Bubba í dag má nálgast í spilaranum hér fyrir neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.