Innlent

Leikskóla lokað og öll í sóttkví eftir að sex starfsmenn smituðust

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leikskólinn Gimli í Reykjanesbæ.
Leikskólinn Gimli í Reykjanesbæ. Skjáskot/Ja.is

Sex starfsmenn leikskólans Gimli í Njarðvík í Reykjanesbæ hafa greinst með kórónuveiruna. Skólanum var lokað í gær vegna þessa. Allir starfsmenn og börn leikskólans eru nú í sóttkví. 

Víkurfréttir greina frá málinu á vef sínum í dag en Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi í Reykjanesbæ staðfestir það sem þar kemur fram í samtali við Vísi. Hún vill ekki tjá sig frekar um málið í kvöld.  

Fram kemur í frétt Víkurfrétta að starfsmaður leikskólans hafi greinst með kórónuveiruna síðasta laugardag. Í framhaldinu hafi fimm starfsmenn til viðbótar greinst og skólanum í kjölfarið lokað. Honum verði áfram lokað út vikuna hið minnsta.

Allir starfsmenn leikskólans, auk 85 barna á leikskólanum, voru settir í sóttkví, að því er segir í frétt Víkurfrétta. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu leikskólans starfa 24 á leikskólanum.

Samkvæmt upplýsingum á Covid.is eru nú tíu í einangrun með Covid-19 á Suðurnesjum og 135 í sóttkví. Ekki er víst hvort smitið á Gimli sé inni í þeim tölum en ef svo er virðist mega rekja stóran hluta smitaðra, sem og þeirra sem eru í sóttkví, á Suðurnesjum til leikskólans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×