Innlent

Fimm úr nær­um­hverfi Víðis og eigin­konu hans smituð

Sylvía Hall skrifar
Víðir Reynisson er í einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveiruna.
Víðir Reynisson er í einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. Vísir

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er nú á fjórða degi veikinda eftir að hafa greinst með kórónuveirusmit. Hann segir daginn í dag vera skárri en í gær, en þá voru þau hjónin verulega slöpp. Að minnsta kosti fimm aðrir úr þeirra nærumhverfi hafa greinst með veiruna.

Víðir tjáði sig um veikindin á Facebook-síðu sinni í kvöld og fer yfir stöðu mála. Þar tekur hann fram að þau hjónin hafi takmarkað umgengni sína við aðra verulega eftir að faraldurinn hófst, en samt hafi þau smitast. Það sýni hversu smitandi veiran er.

„Mánudaginn 23. nóvember fór konan mín að finna fyrir einkennum og fór að sjálfsögðu heim úr vinnu og pantaði tíma í sýnatöku. Það gekk hratt fyrir sig og síðdegis lá niðurstaða um staðfest Covid-19 smit. Smitrakning fór þá strax í gang og var ákveðið að þar sem hún hefði lítil einkenni, en lága CT tölu sem þýddi að hún væri talsvert smitandi, að fara 48 tíma til baka varðandi þá sem þyrftu að fara í sóttkví okkar vegna,“ skrifar Víðir.

Uppruni smits eiginkonu hans er enn óþekktur og smitrakning hefur ekki skilað árangri. Hún hafi nær eingöngu verið á skrifstofu þar sem hún vinnur og farið í verslanir, en allir vinnufélagar hennar reyndust neikvæðir eftir sýnatöku.

Hér að neðan má sjá viðtal fréttastofu við Víði eftir að hann greindist með veiruna. 

Snertifletir dugðu til að smita

Helgina fyrir greiningu voru þau hjónin að mestu heima við, en þó komu nokkrir gestir í heimsókn. Vinafólk þeirra bjó hjá þeim tímabundið vegna þess að þau þurftu til læknis í Reykjavík og kíktu dætur þeirra í kaffi á sunnudeginum ásamt vinkonu þeirra.

„Börn okkar, tengdadóttir og barnabarn komu einnig við og um kvöldið komu til okkar vinahjón sem stoppuðu stutt. Í öllum tilfellum var passað upp á fjarlægðir á milli okkar og gesta og reyndum að forðast sameiginlega snertifleti,“ skrifar Víðir, sem segir það ekki hafa dugað til.

„Við erum búin að fara vel yfir öll samskiptin og höfum fundið að fjarlægð sem var haldin var um eða yfir 2 metra við alla. Hins vegar er ljóst að við pössuðum ekki upp á alla sameiginlega snertifleti. Vatnsskanna, kaffibollar og glös hafa sennilega verið sameiginlegir snertifletir sem hafa dugað til að smita.“

Hann segir þungbært að þetta sé staðan.

„Sjálfur hef ég verið manna duglegastur við að hvetja alla til að passa eigin sóttvarnir og því þungbært að þetta sé staðan. Við getum ekki annað en vonað að við öll, eins og allir þeir fjölmörgu sem eru að berjast við þennan óvætt komum heil út úr þessu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.