Fótbolti

Bayern styrkti stöðu sína á toppnum þegar Dortmund tapaði illa

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Skorar alltaf
Skorar alltaf Getty/Boris Streubel

Það var boðið upp á markasúpu í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í fyrstu fimm leikjum dagsins.

Meistarar Bayern Munchen gerðu vel í heimsókn sinni til nýliða Stuttgart eftir að hafa lent undir á 20.mínútu þegar Tanguy Coulibaly skoraði fyrir Stuttgart. Kingsley Coman jafnaði metin fljótt fyrir Bæjara og Robert Lewandowski sá til þess að Bayern leiddi í leikhléi með því að skora í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Douglas Costa gerði svo út um leikinn skömmu fyrir leikslok. Lokatölur 1-3 fyrir Bayern.

Á sama tíma missteig Borussia Dortmund sig illilega á heimavelli þar sem liðið fékk Köln í heimsókn. Ellyes Skhiri kom Köln í 0-2 en Thorgan Hazard minnkaði muninn fyrir heimamenn á 74.mínútu.

Þeim tókst hins vegar ekki að jafna metin og urðu því af mikilvægum stigum. Lokatölur 1-2 fyrir Köln.

RB Leipzig vann 2-1 sigur á Arminia Bielefeld og hirti þar með 2.sæti deildarinnar af Dortmund, Leipzig með 20 stig en Bayern á toppnum með 22 stig.

Alfreð Finnbogason var ekki í leikmannahópi Augsburg sem gerði 1-1 jafntefli við Freiburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×