Innlent

Sama lægðin stjórnar áfram veðrinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin í gulri viðvörun á höfuðborgarsvæðinu í gær en viðvörunin er nú fallin úr gildi.
Myndin er tekin í gulri viðvörun á höfuðborgarsvæðinu í gær en viðvörunin er nú fallin úr gildi. Vísir/Vilhelm

Gular viðvaranir eru enn í gildi á suður- og vesturhelmingi landsins og verða í gildi á flestum svæðum fram á morgundaginn.

Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni segir að áfram stjórni sama lægðin veðrinu á öllu landinu og er spáð suðvestanátt, þrettán til tuttugu metrum á sekúndu og éljaveðri eins var í gær.

Þó er dálítið minni ákefð í éljahryðjunum og vindurinn örlítið minni. Hægari og þurrt að kalla fyrir austan.

Á Suðurlandi á veðrið til að mynda að ganga niður í dag og fellur gula viðvörunin úr gildi klukkan tvö.

Landsmenn urðu vafalaust margir varir við eldingar sem fylgdu hríðinni í gærkvöldi og voru töluvert margar slíkar taldar á Veðurstofunni frá hádegi í gær samkvæmt korti á vef stofnunarinnar.

Veðurhorfur á landinu:

Suðvestan 13-20 og él, en hægari vindur og þurrt að kalla austanlands. Suðvestan 10-18 á morgun, hvassast norðvestantil, en hægari vindur um sunnan- og suðaustanvert landið. Dálítil él sunnan- og vestanlands. Dregur enn frekar úr vindi annað kvöld, suðlæg átt 3-10 þá. Hiti nálægt frostmarki.

Á laugardag:

Suðvestan 10-18 m/s, hvassast um landið norðvestanvert. Hægari vindur eftir hádegi. Él, en þurrt og bjart austanlands. Hiti nálægt frostmarki.

Á sunnudag:

Norðlæg átt, 5-13 m/s og slydda eða snjókoma með köflum. Vestlægari sunnantil á landinu og dálítil él, en þurrt síðdegis. Frost 0 til 4 stig, en hiti 0 til 2 stig með suðurströndinni.

Á mánudag:

Hæg breytileg átt og þurrt á landinu fyrir hádegi. Vaxandi suðaustanátt síðdegis og þykknar upp, fer að snjóa eða slydda um kvöldið. Frost 2 til 8 stig, en hlýnar er líður á daginn.

Á þriðjudag:

Sunnan strekkingur og rigning, en snýst síðar í stífa suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum, en léttir til um landið norðaustanvert. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.

Á miðvikudag:

Suðlæg átt og él á sunnanverðu landinu. Hvöss norðaustanátt og snjókoma á Vestfjörðum. Úrkomulítið norðaustanlands. Kólnandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×