Innlent

Fundu kylfu og raf­stuð­byssu á dvalar­stað stór­tæks sam­verka­manns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn hefur dvalið í Reykjanesbæ, þar sem gerð var hjá honum húsleit í desember 2019.
Maðurinn hefur dvalið í Reykjanesbæ, þar sem gerð var hjá honum húsleit í desember 2019. Vísir/vilhelm

Meintur samverkamaður karlmanns, sem fyrr í mánuðinum var dæmdur fyrir innflutning á heróíni og lyfjum til landsins, sætir ákæru fyrir annan umfangsmikinn fíkniefna- og lyfjainnflutning í júní. Þá fann lögregla kylfu og rafstuðbyssu á dvalarstað hans í Reykjanesbæ við húsleit í fyrra.

Þetta kemur fram í ákæru yfir manninum sem fréttastofa hefur undir höndum.

Báðir mennirnir voru ákærðir fyrir að hafa staðið að innflutningi á heróíni og lyfjum í september. Annar maðurinn, pólskur ríkisborgari, var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir innflutninginn nú í nóvember.

Efnin fundust í farangri hans í flugi frá Gdansk í Póllandi, auk þess sem hann hafði efni falin innanklæða. Í fórum hans fundust m.a. 77 grömm af heróíni, sem er meira magn en fundist hefur hér á landi í áratug.

276 grömm af metamfetamíni

Hinn maðurinn, sem samkvæmt ákæru er búsettur í Reykjanesbæ, er einnig ákærður fyrir fíkniefnainnflutning þremur mánuðum fyrr, í júní síðastliðnum. Honum er gefið að sök að hafa staðið að innflutningi á 276 grömmum af metamfetamíni, 207 Alprazolam Krka-töflum, 30 Fentanyl-plástrum og 210 Quetipian-töflum.

Í ákæru segir að efnin hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í gróðaskyni. Efnin fundust falin í farangri mannsins í flugi frá Wroclaw í Póllandi, auk þess sem hann var með efni falin innanklæða.

Þá er maðurinn ákærður fyrir brot á fíkniefna- og vopnalögum eftir að 0,36 grömm af kannabislaufum, auk útdraganlegrar kylfu og rafstuðbyssu, fundust við húsleit á dvalarstað hans í Reykjanesbæ í desember í fyrra.

Hann er einnig ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið frá árinu 2018 fram til júní 2020 selt og dreift fíkniefnum og lyfsseðilsskyldum lyfjum að fjárhæð að 9,4 milljónir króna. Þá er krafist upptöku á áðurnefndum fíkniefnum og vopnum, auk reiðufjár í íslenskum krónum, evrum, dollurum og slotum, sem fannst við húsleitina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.