Innlent

Segir mögu­legt að slaka meira á í byrjun desember miðað við nú­verandi stöðu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir tölur gærdagsins um kórónuveirusmitaða vera í takt við það sem búast mátti við. Fimmtán greindust í gær, þar af voru 13 í sóttkví. Hann vonar að bóluefni komi á fyrri hluta næsta árs og virki jafn vel og vísbendingar eru um. Hann segir möguleika á frekari tilslökunum á takmörkunum í byrjun desember.

„Það er bara ánægjulegt að sjá að það eru bara tveir sem eru fyrir utan sóttkví. Auðvitað hefði maður viljað sjá heildartöluna lægri, en ég held að þetta sé bara á því róli sem búist var við.“

Hann segist ekki telja að Íslendingar séu farnir að slaka á persónubundnum sóttvörnum, það sýni hátt hlutfall smitaðra í sóttkví.

„Vegna þess að ef að það væri þá værum við að sjá fleiri einstaklinga sem eru utan sóttkvíar. Ef við förum að sjá fleiri utan sóttkvíar er það áhyggjuefni en meðan við erum að sjá þessa tölu innan sóttkvíar getum við verið nokkuð róleg.“

Hann leggur þá mikla áherslu á að fólk hugi áfram að sóttvörnum og forðist hópamyndanir á borð við veislur og stór boð um aðventuna. Ef smittölur hækki ekki, verði mögulega hægt að aflétta aðgerðum fljótlega. Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir gildir til 1. desember.

„Ef að þróunin heldur svona áfram þá held ég að við getum verið að horfa fram á einhverjar tilslakanir núna í byrjun desember, hins vegar ef við förum að fá eitthvað bakslag þá held ég að það muni taka lengri tíma“

Þórólfur leggur höfuðáherslu á samstöðu og úthald í baráttunni við veiruna.

„Við erum jú að bíða eftir því að við fáum bóluefni, vonandi mun það koma á fyrri hluta næsta árs og virka eins vel og vonir standa til, þannig að við getum bara losað okkur úr þessari prísund sem þessi veira er að halda okkur í.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.