Innlent

Hátt í 5000 Ís­lendingar geta hætt að nota grímur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ef einhver þessara menntaskólanema hefur fengið Covid-19 og lokið einangrun getur sá hinn sami varpað grímunni frá og með 18. nóvember - að framvísuðu vottorði.
Ef einhver þessara menntaskólanema hefur fengið Covid-19 og lokið einangrun getur sá hinn sami varpað grímunni frá og með 18. nóvember - að framvísuðu vottorði. Vísir/vilhelm

Þeir sem fengið hafa Covid-19 og lokið einangrun verða undanskildir grímuskyldu frá og með 18. nóvember næstkomandi, þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra um kórónuveirutakmarkanir tekur gildi. Á fimmta þúsund Íslendinga munu þannig ekki þurfa að nota grímu.

Þessa undanþágu lagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir til í minnisblaði sínu og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst fara eftir í reglugerð sinni.

Til þess að komast hjá því að bera grímur þurfa þeir sem fengið hafa Covid þó að sýna vottorð þar að lútandi á stöðum þar sem grímuskylda er. Hvorki er farið nánar í saumana á umræddu vottorði í minnisblaði sóttvarnalæknis né tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Þegar þetta er ritað hafa 5.170 greinst með kórónuveiruna hér á landi og 4.698 lokið einangrun. 447 eru í einangrun en ætla má að einhverjir þeirra losni úr henni fyrir 18. nóvember. Þannig munu hátt í fimm þúsund Íslendingar geta hætt að bera grímur þegar ný reglugerð tekur gildi.

Einnig verður þeim veitt undanþága frá grímuskyldu sem ekki geta notað grímur, t.d. af heilsufarsástæðum eða ef viðkomandi skortir þroska eða skilning til að bera grímu.

Grímuskylda gildir nú í landinu þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Börn fædd 2015 og síðar eru undanþegin tveggja metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu. Í skólum er grímuskylda fyrir börn í 5. bekk og eldri ef ekki er unnt að tryggja fjarlægðarmörk.


Tengdar fréttir

Tíu and­lát tengjast hóp­sýkingunni á Landa­koti

Tíu þeirra þrettán andláta sem hafa orðið á Landspítala vegna Covid-19 í þeirri bylgju faraldursins sem nú gengur yfir tengjast hópsýkingu sem kom upp á Landakoti sem kom upp þann 22. október síðastliðinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.