Innlent

Mælt fyrir þungunarrofstillögu: „Skuldum pólskum konum samstöðu“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður utan flokka.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður utan flokka. Vísir/Vilhelm

Rósa Björk Brynjólfsdóttir mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að konur sem ekki mega undirgangast þungunarrof í heimalandi sínu geti komið til Íslands og notið þjónustunnar hér á landi. 

Samkvæmt tillögunni yrði aðgerðin gjaldfrjáls og í boði fyrir handhafa Evrópska sjúkratryggingakortsins.

„Ef við ætlum að standa með frelsi og lýðræði í Evrópu, þá þurfum við að taka afstöðu,“ sagði Rósa á Alþingi í dag og bætti við að í tillögunni fælist afstaða með kvenréttindum í Evrópu. „Staða mannréttinda í Póllandi vekur bæði ugg og hrylling.“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins og Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, veittu andsvör og spurðu báðir um mögulegan kostnað sem þessu gæti fylgt. Hvort ætlunin væri að setja á einhvern kvóta ef verulegur fjöldi myndi sækja í úrræðið. 

Rósa Björk sagði erfitt að ætla fjöldann og þar með kostnaðinn. Þá sagði hún íslenskt samfélag skulda pólskum konum samstöðu. Þúsundir pólskra kvenna hafi komið til Íslands að vinna í gegnum árin og greitt hér skatta og gjöld. Þær hafi verið lykilþáttur í uppgangi ferðaþjónustunnar og haldið uppi atvinnugreinum.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, spurði um kostnað við tillöguna.visir/vilhelm

Andrés Ingi Jónsson, sem einnig er flutningsmaður tillögunnar, sagðist ekki deila áhyggjum „þingkarlanna“.

„Er ekki dálítið verið að dramatísera þetta úr öllu hófi miðað við raunveruleika þeirra kvenna sem velja að binda endi á þungun?“ spurði Andrés og benti á að yfirgnæfandi meirihluti þungunarrofs hér á landi færi fram með lyfjagjöf í heimahúsi. Ótti við að íslenskt heilbrigðiskerfi kikni undan álaginu hafi því verið blásinn upp. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.