Innlent

Eltast við lítilsháttar hópsýkingar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rögnvaldur, til hægri, og Þórólfur Guðnason á upphafsstigum kórónuveirufaraldursins í mars.
Rögnvaldur, til hægri, og Þórólfur Guðnason á upphafsstigum kórónuveirufaraldursins í mars. Vísir/Vilhelm

26 greindust með Covid-19 á landinu í gær en ekki hafa fleiri smit greinst á landinu síðan á fimmtudag. Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði aðspurður á upplýsingafundinum í dag að útlit væri fyrir að lítilsháttar hópsýking hefði komið upp. Hún væri í skoðun.

Hann sagði viðbúið að slíkt gerðist en vildi ekki nefna frekar hvar á landinu þessi litla hópsýking hefði komið upp. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er um að ræða fyrirtæki á Vesturlandi þar sem smit hefur komið upp.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við fréttastofu að ekki um hópsýkingar að ræða sambærilegar við þær sem komið hafi upp t.d. á Landakoti eða Hótel Rangá.  Þetta séu smit sem tengist vinnustöðum, fjölskyldum og slíkum hópum. Þau hafi verið einkennandi fyrir þessa bylgju faraldursins. Smitrakningateymið fylgi slíkum málum eftir.

Af Covid-19 vefnum má lesa að af 26 smitum eru níu úr sóttkvíarskimunum og handahófsskimun, þ.e. hjá fólki sem er í sóttkví. 73% þeirra sem greindust með smit í gær voru í sóttkví.

Ellefu smit greindust innanlands í fyrradag, sextán á sunnudag, þrettán á laugardag og 25 á föstudag. Hlutfall í sóttkví hefur verið á bilinu 39 til 88 prósent.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×