Fótbolti

Ferðadagur hjá íslenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson á einni æfingu íslenska liðsins í Augsburg.
Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson á einni æfingu íslenska liðsins í Augsburg. Instagram/@footballiceland

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu færir sig í dag yfir til Ungverjalands eftir stuttar æfingabúðir í Þýskalandi síðustu daga.

Íslensku strákarnir ferðast frá Augsburg í Þýskalandi til Ungverjalands þar sem liðið spilar annað kvöld hreinan úrslitaleik við Ungverja um sæti á EM næsta sumar.

Knattspyrnusamband Íslands þakkaði fyrir sig á samfélagsmiðlum í morgun en Augsburg tók vel á móti íslenska landsliðinu sem fékk mjög dýrmæta daga á æfingasvæði þýska félagsins.

Liðið fékk ekki langan tíma til að undirbúa sig fyrir Ungverjaleikinn og því var mikilvægt að nýta allan tímann vel. Það er ekki að heyra á öðru en að æfingabúðirnar hafi gengið vel.

Íslenski hópurinn þakkaði fyrir sig á samfélagsmiðlum KSÍ í morgun. Það var kannski frekar dimmt yfir Augsburg svæðinu þessa daga ef marka má myndir frá æfingum íslenska liðsins en það er greinilega ekki dimmt yfir íslenskum landsliðsstrákunum sem eru staðráðnir að tryggja íslenska landsliðinu sæti á þriðja stórmótinu í röð.

Nú er því komið að því að færa sig yfir til Ungverjalands þar sem liðið mætir heimamönnum klukkan 19.45 annað kvöld að íslenskum tíma.

Þetta verður sem betur fer ekki langt ferðalag enda Augsburg í suður Þýskalandi og ekki mjög langt frá Búdapest. Reyndar átta tíma bílferð en strákarnir fá sem betur fer þægilegra ferðalag en að hanga í rútu í svo langan tíma.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×