Erlent

Hafna fréttum um að Pútín ætli að hætta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Vladímír Pútín, forseti Rússlands.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands. AP/Alexei Druzhinin

Dmítrí Peskov, upplýsingafulltrúi Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta, hafnaði í dag frétt breska götublaðsins The Sun um að forsetinn þaulsetni ætlaði sér að láta af störfum eftir áramót af heilsufarsástæðum.

Alina Kabaeva, sem sögð er ástkona forsetans, hefur samkvæmt breska blaðinu krafið Pútín um að hætta vegna áhyggja af því að hann sé með Parkinsonsveiki. Þá er eftirlitsfólk, sem er ekki nefnt á nafn, sagt halda því fram að nýlegt myndefni af forsetanum sýni að hann sé með einkenni sjúkdómsins.

Peskov sagði fréttina fáránlega, að því er ríkismiðillinn TASS greinir frá. Hann sé við hestaheilsu. „Þessi frétt er ekki svaraverð. Þetta er algjör vitleysa. Forsetinn er hress,“ sagði upplýsingafulltrúinn.

Pútín hefur gegnt embætti Rússlandsforseta frá árinu 2012, gerði það sömuleiðis á milli áranna 1999 og 2008 og var forsætisráðherra í millitíðinni. Í júlí tóku gildi stjórnarskrárbreytingar sem gera honum meðal annars kleyft að sitja til ársins 2036, að því gefnu að hann nái endurkjöri. Það hefur hingað til ekki reynst vandamál en forsetinn hefur ítrekað verið sakaður um kosningasvindl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×