Innlent

Datt ekki í hug að á­fengi væri skil­greint sem mat­væli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundinum í dag.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundinum í dag. Almannavarnir

Það hefur vakið töluverða athygli að samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra um hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins mega allt að fimmtíu manns vera inni í lítilli Vínbúð en aðeins tíu manns í stórri byggingavöruverslun.

Ástæðan er sú að áfengi er skilgreint í lögum sem matvæli og fimmtíu manns mega vera inni í matvöruverslunum á hverjum tíma.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, var spurður út í þetta á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Hann var spurður hvort ekki þyrfti að skýra betur þessar reglur og hvort að hugmyndir væru um að taka Vínbúðina út fyrir sviga í þessum fjöldatakmörkunum.

„Það var nú bara þannig að við höfðum ekki hugmyndaflug í það að átta okkur á því að áfengi væri skilgreint sem matvara þannig að við höfum nú beint því til þeirra sem bera ábyrgð á rekstri Vínbúðanna um að hugsa sinn gang og fara yfir málið. Hvort að raunverulega sé þörf á því að hleypa fimmtíu manns inn eða hvort húsnæðið yfir höfuð dugar fyrir það. Það er bara í skoðun,“ svaraði Víðir.

Áður á fundinum hafði hann farið yfir það hvað fjöldatakmarkanirnar sem talað er um í reglugerðinni þýddu þegar það kæmi að verslunum.

Þar sem talað væri um tíu í venjulegum verslunum, fimmtíu í matvöruverslunum og lyfjaverslunum og fleiri í stærri verslunum væri átt við fjölda viðskiptavina. Starfsmenn verslana væru teknir út fyrir sviga í þessari talningu en þeir mættu að hámarki vera tíu í hverju sóttvarnahólfi í stærri verslunum.

Víðir hvatti þó verslunarmenn til þess að reyna að hafa eins fá starfsmenn við þjónustu eins og mögulegt væri í samræmi við það að almenningur ætti að leita sér eins lítið að þjónustu og mögulegt væri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×