Innlent

Lög­reglu­menn vísuðu von­góðum kylfingum af velli

Sylvía Hall skrifar
Lögreglumenn vísaði kylfingum af Hólmsvelli við Leiru í dag. Myndin er þó frá Korpu, en þar er einnig óheimilt að spila golf líkt og annars staðar.
Lögreglumenn vísaði kylfingum af Hólmsvelli við Leiru í dag. Myndin er þó frá Korpu, en þar er einnig óheimilt að spila golf líkt og annars staðar. Vísir/Vilhelm

Lögreglumenn á Suðurnesjum vísuðu kylfingum af Hólmsvelli í Leiru í dag þar sem þeir hugðust spila golf. Samkvæmt varðstjóra tóku kylfingarnir vel í tilmælin og urðu engir eftirmálar vegna þessa.

Samkvæmt nýrri reglugerð er lagt bann við öllum íþróttum og bárust þær skýringar í dag að það ætti einnig við um golf.

Greint var frá því á Vísi fyrr í dag að viðbragðshópur Golfsambands Íslands ætlaði sér að „greina stöðuna“ eftir að hertari sóttvarnaaðgerðir tóku gildi á miðnætti. Þótti þeim áhrif reglugerðarinnar á golfiðkun ekki ljós og óskuðu eftir skýringum frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni.

„Nú ber svo við að í tengslum við einstaka íþróttir, t.d. golf, vilja menn túlka það sem svo að stunda sína íþrótt einn t.d. að spila golf einn falli undir undanþáguna um einstaklingsbundna æfingu. Það teldist hins vegar skipulagt íþróttastarf að t.d. þurfa að skrá sig á rástíma eða spila golf með öðrum,“ segir í útskýringum til Golfsambandsins.

„Við sögðum þeim bara að hætta“ 

Víkurfréttir greindu frá heimsókn lögreglumanna á völlinn í dag þar sem segir að tveir lögreglumenn höfðu rætt við fjölda kylfinga. Varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum staðfestir þetta í samtali við Vísi.

„Það voru allnokkrir þar og við sögðum þeim bara að hætta.“

Kylfingarnir hafi tekið vel í heimsókn lögreglumannanna, allir hafi sýnt því skilning að golfiðkun væri ekki heimil og því urðu engir frekari eftirmálar. Fólk hafi einfaldlega farið aftur heim.

Lögregla hefur einnig sinnt öðru eftirliti eftir að nýjar samkomutakmarkanir tóku gildi. Nú kveður samkomubann á um tíu manna hámarksfjölda og er grímuskylda víða. Þrátt fyrir lítinn fyrirvara á breytingunum telja lögreglumenn að allt hafi gengið nokkuð smurt fyrir sig.

„Það er búið að fara í verslanir og annað. Þetta gengur vel.“


Tengdar fréttir

Íþróttastarf leggst af

Heilbrigðisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi í dag að íþróttastarf verði lagt af næstu tvær til þrjár vikurnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×