Fótbolti

Miðar ruku út á úrslitaleik Íslands og Ungverjalands

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland komst í úrslitaleikinn með því að vinna Rúmeníu í undanúrslitum snemma í þessum mánuði. Ungverjaland vann Búlgaríu á sama tíma.
Ísland komst í úrslitaleikinn með því að vinna Rúmeníu í undanúrslitum snemma í þessum mánuði. Ungverjaland vann Búlgaríu á sama tíma. vísir/vilhelm

Ljóst er að ungverskir stuðningsmenn ætla ekki að láta sitt eftir liggja þegar Ungverjaland og Ísland mætast í úrslitaleiknum um sæti á EM, í Búdapest eftir 13 daga.

Á fyrsta klukkutímanum eftir að miðasala opnaði seldust 6.000 miðar, samkvæmt ungverska knattspyrnusambandinu. Miðasalan er aðeins opin fyrir meðlimi í stuðningsmannafélagi landsliðsins og aðeins hægt að kaupa miða sem gildir á alla þrjá leikina sem framundan eru hjá Ungverjum. Eftir leikinn við Ísland mæta þeir Serbíu og Tyrklandi í Þjóðadeildinni.

Á mánudaginn hefst almenn miðasala, ef ekki verður þegar orðið uppselt í þau 20 þúsund sæti sem í boði eru á Puskás Arena að þessu sinni. Þá verður hægt að kaupa miða á staka leiki. Uppselt er nú þegar í þau sæti sem ódýrust eru á vellinum.

Engir miðar fyrir íslenska stuðningsmenn

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, tilkynnti fyrir mánuði síðan að áhorfendabanni á landsleikjum hefði verið aflétt að hluta. Bannið var sett á vegna kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt nýju reglunum má selja miða í þriðjung þess sætafjölda sem er á hverjum leikvangi, en Puskás Arena rúmar yfir 60 þúsund manns.

Samkvæmt sömu reglum fá stuðningsmenn gestaliðs ekki úthlutað miðum á leiki, en vanalega hafa gestaþjóðir fengið að kaupa 10% þeirra miða sem í boði eru á landsleikjum.

„Við sjáum á áhuganum og eftirspurninni að stuðningsmennirnir vilja ólmir hjálpa landsliðinu í þessum heimaleikjum. Stuðningsmennirnir vilja vera á staðnum og vonast til að saman tryggjum við okkur sæti á EM,“ sagði Jeno Sipos talsmaður ungverska knattspyrnusambandsins.

Liðið sem vinnur leikinn mun leika tvo leiki á Puskás Arena næsta sumar, í lokakeppni EM, gegn Portúgal og Frakklandi. Síðasti leikurinn í riðlinum verður gegn Þýskalandi í München.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×