Innlent

Skólar verða opnir en með takmörkunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, á blaðamannafundinum í Hörpu um hertar sóttvarnaaðgerðir í dag.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, á blaðamannafundinum í Hörpu um hertar sóttvarnaaðgerðir í dag. Vísir/Vilhelm

Menntarmálaráðherra segir að skólar verði áfram opnir en með takmörkunum eftir að sóttvarnareglur vegna kórónuveirufaraldursins verða hertar á miðnætti. Takmarkanir á skólastarfi verða kynntar um helgina og taka gildi í miðri næstu viku.

Ríkisstjórnin kynnti hertar sóttvarnareglur vegna uppgangs kórónuveirufaraldursins á blaðamannafundi kl. 13:00. Tíu manna samkomubann tekur gildi á miðnætti og þá verður lögð ríkari áhersla á grímunotkun. Dregið verður úr undanþágum fyrir börn í nýju reglunum. Nú verða aðeins börn fædd 2015 og síðar undanþegin tveggja metra fjarlægðarreglu, fjöldamörkum og grímuskyldu. Slík undanþága gilti áður fyrir börn fædd 2005 og síðar.

Lilja útskýrði stöðu mála nánar að loknum fundi í dag.

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sagði að þær Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ynnu að reglum um starfsemi skóla sem yrðu kynntar um helgina. Skólar yrðu opnir en með takmörkunum. Hólfaskipting yrði aftur tekin upp til að takmarka smithættu.

Reglurnar myndu byggja á umfangsmiklu samráði við kennara, skólastjórnendur og nemendur. Þá hefði stóraukið fjármagn verið lagt í skólana til að hægt væri að halda þeim opnum. 

„Þetta mun allt taka endi,“ sagði Lilja sem þakkaði kennurum, skólastjórnendum og nemendum fyrir að hafa sýnt þrautseigju og hugrekki í faraldrinum til þessa.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði eftir fundinn að frekari nándartakmarkanir verða nú í skólum en hafa verið til þessa og meiri hólfaskipting. Reglurnar muni hafa meiri áhrif á eldri bekki grunnskóla og framhaldsskóla.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði í viðtali eftir fundinn að reglurnar fyrir skóla yrðu kynntar á sunnudag og tækju líklegast gildi á miðvikudag.

https://www.visir.is/g/20202031211d/vek-fra-tillogum-thorolfs-i-einu-atridi

Tengdar fréttir

Íþróttastarf leggst af

Heilbrigðisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi í dag að íþróttastarf verði lagt af næstu tvær til þrjár vikurnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×