Innlent

„Tiltölulega sprækur“ þegar smalar fundu manninn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Maðurinn hafðist við í neyðarskýli í nótt en smalar fundu hann þegar birta tók.
Maðurinn hafðist við í neyðarskýli í nótt en smalar fundu hann þegar birta tók. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem leitað var að í Stafafellsfjöllum frá því í gærkvöldi fannst um ellefuleytið í morgun heill á húfi. Maðurinn hafðist við í neyðarskýli í nótt en smalar fundu hann eftir að birta tók og komu honum í hendur björgunarsveitarmanna. Maðurinn og björgunarsveitin eru rétt ókomin til Hafnar í Hornafirði.

Leit að manninum hefur staðið yfir frá því gærkvöldi. Leitarsvæðið var nokkuð stórt en gul viðvörun var þar í gildi í alla nótt og allan morgun vegna austan storms og hríðar.

Liðsstyrkur barst Landsbjörg í morgun þegar hópar björgunarsveitarfólks frá Austurlandi og Suðurlandi leystu þau af sem höfðu verið við leit í alla nótt. Á annað hundrað manns tóku þátt í björgunaraðgerðum og fleiri voru á leið á leitarvettvang þegar maðurinn fannst.

Leitað frá klukkan átta í gærkvöldi

Friðrik Jónas Friðriksson, aðgerðastjórnandi á Höfn, hafði verið við leitarstörf frá klukkan átta í gærkvöldi með einungis þriggja klukkustunda hvíld.

„Það var mjög hvasst og leiðindaúrkoma með þessu og það var ástæðan fyrir því að þyrlan gat ekki athafnað sig nógu vel því það var allt of mikil úrkoma með þessu. Björgunarmenn fóru um svæðið og helstu gönguleiðir þarna og svo í morgun vorum við búnir að útvíkka leitarsvæðið og hann kemur niður á veg á því svæði þegar birti.“

Á annan tug björgunarsveitarmanna tóku þátt í leitinni sem hófst klukkan átta í gærkvöldi.

Vel búinn og vanur göngumaður

Maðurinn, sem er á tvítugsaldri hafðist við í neyðarskýli og var vel búinn. Hann er vanur útivistarmaður. Friðrik var spurður út í líðan mannsins; hvort hann hefði ekki verið kaldur og hrakinn.

„Hann var tiltölulega sprækur. Það var enginn kuldi á honum í nótt. Hann var að labba niður veg þegar smalar sáu til hans og tilkynntu okkur málið.“

Ekki sé talin ástæða til að flytja manninn á sjúkrahús.

„Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar menn koma fólkinu heim.“

Já, er það ekki góð tilfinning?

„Jú, það er yndisleg tilfinning þegar maður fær fréttir um að menn séu fundnir heilir á húfi.“


Tengdar fréttir

Maðurinn fundinn heill á húfi

Maðurinn sem leitað hefur verið að í Stafafellsfjöllum frá því í gærkvöldi er fundinn heill á húfi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.