Innlent

Tveir af tuttugu og sjö farþegum Norrænu með smit

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Norræna er væntanleg til Seyðisfjarðar á morgun.
Norræna er væntanleg til Seyðisfjarðar á morgun. Vísir/Jóhann K.

Tveir af þeim 27 farþegum sen nú eru um borð í farþegaskipinu Norrænu á leið til Íslands hafa greinst með kórónuveirusmit. Farþegarnir tveir, ásamt tveimur ferðafélögum þeirra, eru nú í einangrun um borð í skipinu. Ekki er talin ástæða til að ætla að smit hafi borist í aðra um borð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðarstjórn almannavarna á Austurlandi þar sem segir að skömmu eftir brottför Norrænu frá Hirtshals í Danmörku á laugardag á leið hennar til Seyðisfjarðar hafi komi í ljós í kjölfar sýnatöku að tveir farþeganna voru með kórónuveirusmit.

Þeir voru settir í einangrun auk þess sem að tveir ferðafélagar þeirra voru einnig settir í einangrun, en þeir hafa ekki greinst með smit. Alls eru 27 farþegar um borð. Ekki er talin ástæða til þess að ætla að smit hafi borist í farþega eða áhöfn skipsins.

Fjórmenningarnir munu fara í sýnatöku við komu og ætti niðurstaða hennar að liggja fyrir seinnipartinn á morgun eða annað kvöld. Áframhaldandi sóttkví bíður þeirra og einangrun í samræmi við reglur.

Norræna kemur til Seyðisfjarðar í fyrramálið og sýni verða samkvæmt venju tekin af öllum farþegum öðrum við komuna. Þeir dvelja í sóttkví þar til niðurstaða seinni skimunar liggur fyrir að fimm til sex dögum liðnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×