Menning

Leikstjóri argar og gargar vegna opnunar líkamsræktarstöðva

Kolbeinn Tumi Daðason og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Björk er ósátt við ákvörðun heilbrigðisráðherra.
Björk er ósátt við ákvörðun heilbrigðisráðherra. Ólafur Már Svavarsson

Leikstjórinn Björk Jakobsdóttir óttast að opnun líkamsræktarstöðva hafi það í för með sér að lengri tíma taki að kveða niður þriðju bylgju faraldursins. Það leiði af sér að lengri tími líði þar leikhúsin geti dregið tjöldin frá og að önnur starfsemi geti farið á flug.

„Miðað við reynsluna þá er ég hrædd um að með þessari opnun sjáum við aukin tilfelli smita og það hægir á öllu samfélaginu. Það hægir á því að við getum farið að opna leikhúsin. Lengri tími mun þá líða þar til tónlistarfólk getur starfað á ný o.s.frv,“ sagði Björk Jakobsdóttir, leikkona og leikstjóri í samtali við fréttastofu.

Hún segir þá aðgerð heilbrigðisráðherra að heimila líkamsræktarstöðvum að standa fyrir hóptímum splundra allri samstöðu. Sóttvarnalæknir vildi loka líkamsræktarstöðvum en heilbrigðisráðherra ber fyrir sig jafnræðisreglu.

Hugsar til vinkonu á Landspítalanum

Margt er í biðstöðu vegna þriðju bylgju faraldursins. Því segir Björk samfélagslega mikilvægt að kveða niður faraldurinn á sem stystum tíma.

„Vinkona mín bíður eftir aðgerð á Landspítalanum. Þetta tefur aðgerðina hennar.“

Björk spyr hvers vegna fólk geti ekki ræktað líkama sinn utan dyra þessa dagana.

Björk, sem er öflug í leikhússtarfinu í Hafnarfirði og rekur Gaflaraleikhúsið þar í bæ, vekur máls á afstöðu sinni á Facebook. Hún sé ekki vön að garga á samfélagsmiðlinum en nú verði hún.

„GAAARRRGGG! Hvað er málið með að leyfa líkamsræktarstöðvum að hafa opið?“ spyr Björg.

Launalaus síðan í mars

Sýningar á leikritinu Mamma klikk, eftir bók Gunnar Helgasonar, voru tiltölulega nýhafnar þegar þeim var frestað vegna hertra sóttvarnaraðgerða á höfuðborgarsvæðinu.

Leikhópurinn í Mamma klikk.Gaflaraleikhúsið

„Við æfðum í september og sýndum eina helgi. Svo kom þessi bylgja. Leikararnir sem starfa hjá okkur eru sjálfstæðir verktakar og hafa ekki fengið sýningarlaun frá því í mars. Það er blóðugt að neita fólki um launatékkann vegna stöðunnar og horfa upp á það að fólk þurfi að komast í spinning,“ segir Björk.

„Samt hefur enginn hingað til smitast að mér vitanlega í leikhúsinu en það má rekja mörg hundruð smit til líkamsræktarstöðva.“

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi í dag heimilar hóptíma í líkamsræktarstöðvum að uppfylltum skilyrðum. Fólk fær ekki aðgang að búningsklefum, deilir ekki tækjum og tólum með öðrum auk þess sem miðað er við tuttugu manns að meðtöldum kennara í tímunum - í samræmi við tuttugu manns samkomubann í landinu.

Hvetur fólk til að láta í sér heyra

„Þessi gjörningur á væntanlega eftir að leiða af sér fleiri smit sem að veldur því að við getum ekki opnað leikhús landsins. Hvað með andlega heilsu? Það er indælis haustveður og fólk getur vel ræktað líkamann utan dyra. Og á sama tíma og það má fara grímulaus í hóptíma í líkamsræktarstöðvum þar sem svitinn bogar af fólki og loftræsting er léleg þá er sundfélögum bannað að æfa þó það sé einn iðkandi í lauginni í einu. Það sér það hver heilvita maður að svona gjörningur splundrar allri samstöðu,“ segir Björk.

Boðið var upp á hóptíma í Sporthúsinu og World Class í dag en sömuleiðis í fjölmörgum Crossfit stöðvum. Sitt sýnist hverjum um ákvörðun heilbrigðisráðherra.Vísir/Vilhelm

„Líkamsræktarstöðvar eiga bara ekkert meira bágt en við hin og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þarf að endurskoða þennan gjörning ef að hún ætlar að treysta á samstöðu landans.“

Hún hvetur fólk til að láta í sér heyra.

„Ég er alla vega brjáluð AAARRRGGG!“

Smit tengd líkamsræktarstöðvum hlaupi á hundruðum

110 kórónuveirusmit hafa verið rakin beint til líkamsræktarstöðva og annarrar íþróttaiðkunar. Þar eru ekki meðtalin afleidd smit sem væntanlega hlaupa á hundruðum. Þetta kemur fram í svari almannavarna við fyrirspurn fréttastofu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að sér þætti ekki hyggilegt að opna líkamsræktarstöðvar á ný í ljósi þess að þær væru „aðaluppspretta faraldursins“ sem nú gengur yfir.

Björk undrast ákvörðun heilbrigðisráðherra í ljósi þess að sóttvarnarlæknir lagði til að líkamsræktarstöðvar yrðu áfram lokaðar.

„Við erum öll að blæða og verðum að takast á við þetta saman. Líkamsræktarstöðvum blæðir ekki meira en okkur sem störfum í leikhúsunum,“ sagði Björk.

Þórólfur hefur áhyggjur af opnun líkamsræktarstöðva enda má rekja 110 smit beint til nokkurra slíkra stöðva.Vísir/Vilhelm

Lagði hann því til við ráðherra að líkamsræktarstöðvum yrði lokað. Hann ræddi málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Þá fóru menn að velta fyrir sér annars konar líkamsrækt. Hvort öll líkamsrækt væri þá bönnuð. Hvort það væri bannað að fólk stundaði æfingar og færi út að hlaupa,“ sagði Þórólfur.

Fólk hafi velt fyrir sér hvort krossfitt og jóga væri íþrótt eða ekki.

Vildi þá banna alla slíka starfsemi

„Við það flæktist málið töluvert þannig að á endanum voru íþróttir sem ekki eru skilgreindar innan ÍSÍ, þar á meðal krossfitt og jóga, látnar falla undir venjulegar íþróttir þar sem væri gætt að nándarreglunni og öðru slíku,“ sagði Þórólfur.

„Í mínum huga var líkamsrækt algjörlega eitthvað sem við þurftum að stöðva áfram þangað til við værum búin að ná betri tökum á faraldrinum.“

Þórólfur Guðnason skilar tilmælum sínum til heilbrigðisráðherra sem tekur svo ákvörðun um útfærslu á reglugerðum.Vísir/Vilhelm

Hann segir að tvær leiðir hafi verið í stöðunni fyrir ráðuneytið. Annað hvort að leyfa krossfitt, jóga og almenna líkamsrækt innan þessara marka líkt og ráðuneytið gerði.

„Eða þá að skilgreina þetta allt sem starfsemi sem væri bönnuð. Ég lagði til að það yrði gert en hitt varð ofan á,“ sagði Þórólfur.

Segja þau Þórólf hafa sama skilning

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagðist í samtali við fréttastofu í dag ekki vera að láta undan þrýstingi frá líkamsræktarstöðvunum. Þetta snerist um jafnræðisreglu. Því hefði hún tekið þessa ákvörðun.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur að mestu fylgt tilmælum sóttvarnalæknis undanfarna mánuði en með undantekningum þó.Vísir/Vilhelm

„Þetta snýst um það að [Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknis] leggur til að heimila ákveðna starfsemi eins og jóga og krossfitt í bókuðum tímum þar sem að eru innan við tuttugu manns og tveir metrar á milli og það er hægt að hreinsa búnað á milli og svo framvegis. Og vegna jafnræðisreglu er ekki hægt að heimila það hjá einum rekstraraðila en ekki hjá öðrum,“ segir Svandís.

Þessi afar takmarkaða starfsemi verði því heimil hjá líkamsræktarstöðvum, eins og hjá öðrum aðilum sem veita þessa þjónustu.

„Við Þórólfur höfum farið yfir þetta og það er algjörlega sameiginlegur skilningur á því eins og það er núna,“ segir Svandís.

Fyrirgefið. ég er nú ekki vön að garga á Feisbókinni, en nú bara verð ég. GAAARRRGGG! Hvað er málið með að leyfa...

Posted by Björk Jakobsdóttir on Tuesday, October 20, 2020

Fleiri ósáttir og telja samstöðu horfna

Formaður Körfuknattleikssambands Íslands deilir þeirri skoðun með Björk að samstaðan sem ríkt hafi í upphafi faraldursins sé horfin.

„Staðan í dag er sundung og það er vegna óreiðu yfirvalda og stjórnsýslunnar. Engin veit hver raunverulega ræður í sóttvarnaraðgerðum landsins í baráttunni við COVID hér á Íslandi í dag,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ í dag.

Hann harmar hve lítið samráð hann telur yfirvöld hafa haft við íþróttahreyfinguna í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Ekki sé borin virðing fyrir „fjölmennustu fjöldahreyfingu landsins“.

„Frábært að líkamsræktarstöðvar mega opna, það gleður mig! En samt má ekki stunda íþróttir í skipulögðu íþróttastarfi eða konan mín mæta í vinnuna sína á Englahár til að klippa og lita þá sem vilja komast í hársnyrtingu!“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×