Innlent

Allt skalf og nötraði hjá þríeykinu sem hélt kúlinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þríeykið á einum af fyrstu upplýsingafundunum áður en tveggja metra reglan tók gildi.
Þríeykið á einum af fyrstu upplýsingafundunum áður en tveggja metra reglan tók gildi. Vísir/Vilhelm

Alma Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason voru saman á fundi í húsakynnum Landlæknis í Katrínartúni 2, Höfðatorgsturninum, þegar stór skjálfti reið yfir suðvesturhornið klukkan 13:43. 

Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúa Almannavarna sem sat fundinn með þríeykinu í dag, segir alla hafa haldið kyrru fyrir en í framhaldi af skjálftanum yfirgefið bygginguna.

„Katrínartúnið er há bygging. Húsið skalf og nötraði,“ segir Jóhann í samtali við Vísi. Hann svarar játandi aðspurður hvort allir hafi haldið kúlinu.

Kjartan Hreinn Njálsson er aðstoðarmaður landlæknis.Vísir/Vilhelm

„Við biðum eftir því að skjálftinn gekk yfir. Að því loknu fórum við út úr byggingunni ásamt öðru samstarfsfólki.“

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, sat fundinn með fjarfundarbúnaði en hann var staddur á heimili sínu í Hafnarfirði. Jóhann segir þríeykið fyrst hafa séð skjálftann á skjánum, því allt hristist hjá Kjartani enda nær skjálftaupptökunum, en svo fundið fyrir skjálftanum sjálft.

„Þetta var óþægilegt,“ segir Jóhann. 

Jóhann K. Jóhannsson á upplýsingafundi með þeim Víði og Þórólfi.Vísir/Vilhelm

„Við sáum fyrst allt hristast hjá honum og svo nokkrum sekúndum síðar þegar skjálftinn náði til okkar. Í minningunni líður mér eins og þetta hafi verið sex, sjö, átta sekúndur.“

Jarðskjálftinn fannst víða á landinu og hafa borist tilkynningar um að myndir hafi fallið af veggjum og smáhlutir dottið úr hillum á Suður- og Vesturlandi. Engar tilkynningar hafa borist um meiðsli á fólki eða tjón á mannvirkjum.

Jóhann segir almannavarnir biðla til fólks að kynna sér varnir og viðbúnað við jarðskjálfta á heimasíðu almannavarna.

„Svo er áríðandi að þeir sem fundu fyrir skjálftanum tilkynni það,“ segir Jóhann. Það má gera hér. Það muni hjálpa við mat á skjálftanum og við áætlanagerð til framtíðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×