Innlent

Festi hönd sína í gámnum og lést

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Umræddur söfnunargámur Rauða krossins í Kópavogi.
Umræddur söfnunargámur Rauða krossins í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Allt bendir til þess að karlmaður um þrítugt sem lést í Kópavogi á mánudaginn hafi fest sig í söfnunargámi Rauða krossins þegar hann var að teygja sig ofan í hann. Þetta segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild lögreglu, í samtali við Vísi.

„Það er ekki hægt að sjá neitt annað en að þetta hafi verið slys,“ segir Karl Steinar.

Viðkomandi hafi verið að teygja sig eftir einhverju ofan í gámnum þegar hann festi hönd sína. Gámurinn er staðsettur rétt vestan við tónlistarhúsið Salinn í vesturbænum í Kópavogi.

Endanlegar niðurstöður úr krufningu liggja ekki fyrir og gætu dregist vegna anna í þeirri deild. Nefnir hann andlát manns í húsbíl sem brann sem annað nýlegt verkefni á borði réttarlæknis.

Óvenju margar réttarkrufningar hafa verið gerðar á árinu og óútskýrðum dauðsföllum hefur fjölgað. Aðeins einn réttarlæknir sinnir öllu landinu eins og fjallað var um í fréttum Stöðvar 2 á dögunum.

Karl Steinar segist ekki hafa heyrt af svona slysi hér á landi áður. Merkingar séu á gámi Rauða krossins sem vari við því að fólk reyni að teygja sig ofan í gáminn.

Karlmaðurinn fannst klukkan átta að morgni. Karl Steinar segir ekki ljóst á þessari stundu hve lengi maðurinn hafi verið fastur í gámnum. Þá hafði hann ekki upplýsingar um hvernig málið var tilkynnt. Líklegast hefði lögreglu borist tilkynning frá vegfaranda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×