Innlent

Sex af hverjum tíu telja mikil­vægt að fá nýja stjórnar­skrá

Atli Ísleifsson skrifar
Konur (67%) reyndust líklegri heldur en karlar (51%) til að segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili.
Konur (67%) reyndust líklegri heldur en karlar (51%) til að segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Vísir/Hanna

Um sex af hverjum tíu segjast nú telja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Það er meira en tvöfaldur sá fjöldi sem telur það lítilvægt.

Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar MMR. Stuðningur við endurnýjun stjórnarskrárinnar eykst um sex prósentustig milli ára.

Í tilkynningu frá MMR segir að fjöldi þeirra sem segist á báðum áttum fækki – sérstaklega meðal ungs fólks sem tekur nú afgerandi afstöðu með endurnýjun stjórnarskrár. 69% prósent svarenda á aldrinum 18 til 29 ára sögðu endurnýjun frekar eða mjög mikilvæga.

„Konur (67%) reyndust líklegri heldur en karlar (51%) til að segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta er töluverð breyting frá síðustu könnun MMR, frá í október 2019, þegar þessi sömu hlutföll reyndust 56% fyrir konur og 49% fyrir karla.

Sem fyrr þá reyndist hlutfall þeirra sem sögðu endurnýjun stjórnarskrár mjög mikilvæga hæst í aldurshópnum 67 ára og eldri (50%) en töluverð breyting varð hvað aldurshópinn 18-29 ára varðaði, þar sem hlutfall þeirra sem töldu endurnýjun stjórnarskrárinnar mjög mikilvæga jókst úr 24% í 46%.

Hlutfall þeirra sem kváðu endurnýjun stjórnarskrár mjög mikilvæga jókst einnig í öðrum aldurshópum - úr 29% í 35% meðal 30-49 ára og úr 34% í 37% meðal 50-67 ára.

Fjöldi þeirra sem töldu endurnýjun stjórnarskrár mjög mikilvæga jókst hvort tveggja á höfuðborgarsvæðinu (úr 34% í 43%) og á landsbyggðinni (úr 28% í 34%). Samanlagður fjöldi þeirra sem töldu frekar eða mjög mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili mældist nú 62% á höfuðborgarsvæðinu og 52% á landsbyggðinni,“ segir í tilkynningunni.

Svarfjöldi könnunnarinnar var 2.043 einstaklingar og var hún framkvæmd dagana 10. til 23. september 2020.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.