Fótbolti

Wenger segir að Þjóðadeildin sé of flókin og vill hætta með hana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsene Wenger er ekki í hópi aðdáenda Þjóðadeildarinnar.
Arsene Wenger er ekki í hópi aðdáenda Þjóðadeildarinnar. getty/Omar Zoheiry

Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal og núverandi þróunarstjóri hjá FIFA, er ekki hrifinn af Þjóðadeildinni og vill að UEFA hætti með hana. Í staðinn leggur hann til að HM og EM verði haldin á tveggja ára fresti en ekki fjögurra ára eins og hefur tíðkast.

„Við þurfum að hætta með Þjóðadeildina og finna viðburði sem fleiri skilja,“ sagði Wenger við Bild.

„Ef þú spyrð fólk úti á götu hvernig Þjóðadeildin gengur fyrir finnurðu ekki marga sem geta svarað því. Við þurfum eins fáa viðburði og hægt er. Eina heimsmeistarakeppni og eitt Evrópumót á tveggja ára fresti væri líklega skynsamlegra í dag.“

UEFA setti Þjóðadeildina á laggirnar 2018 en hún átti að koma í staðinn fyrir vináttulandsleiki og fjölga leikjum milli liða á svipuðu getustigi. Portúgal vann fyrstu útgáfu Þjóðadeildarinnar.

Íslandi hefur gengið bölvanlega í Þjóðadeildinni og á enn eftir að fá stig í þessari keppni. Íslendingar mæta Belgum í fjórða leik sínum í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×