Fótbolti

Ungverjar sóttu sögulegan sigur til Serbíu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sigurmarkið í uppsiglingu
Sigurmarkið í uppsiglingu vísir/Getty

Leikið var víðar en í Reykjavík í Þjóðadeild Evrópu í kvöld og meðal annars voru Ungverjar, verðandi andstæðingar Íslands í umspili fyrir EM, í eldlínunni.

Þeir héldu til Serbíu í riðli 3 í B-deildinni. Leiknum lauk með 0-1 sigri Ungverja þar sem Norbert Konyves gerði eina mark leiksins. Um er að ræða fyrsta útisigur Ungverja á Serbum í 60 ár en Serbar höfðu ekki tapað á heimavelli fyrir Ungverjum í sjö leikjum í röð þegar kom að leiknum í kvöld.

Í sama riðli áttust Rússar og Tyrkir við og lauk leiknum með 1-1 jafntefli en Rússar tróna á toppi riðilsins með 7 stig og Ungverjar fylgja fast á hæla þeirra með 6 stig.

Austurríki gerði góða ferð til Norður-Írlands og vann 0-1 sigur í riðli 1 í B-deildinni á sama tíma og Skotar unnu 1-0 heimasigur á Slóvakíu í riðli 2 en í sama riðli unnu Tékkar 1-2 sigur á Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×