Fótbolti

Xavi hafði betur gegn Heimi í bikarúrslitaleik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Santi Cazorla gerði eitt marka Al Sadd.
Santi Cazorla gerði eitt marka Al Sadd. vísir/Getty

Lærisveinar Heimis Hallgrímssonar í Al Arabi biðu lægri hlut fyrir lærisveinum Xavi í Al Sadd í úrslitaleik bikarkeppninnar í Katar.

Hamdi Harbaoui, stjörnuframherji Al Arabi, komst nálægt því að koma liði sínu yfir snemma leiks en hörkuskot hans hafnaði í þverslánni. 

Í kjölfarið komust Al Sadd yfir með marki Youssef Youssef eftir snarpa skyndisókn á 17.mínútu. 

Suður-Kóreumaðurinn Nam Tae-Hee tvöfaldaði forystu Al Sadd snemma í síðari hálfleik og það var enginn annar en Santi Cazorla, fyrrum leikmaður Arsenal, sem gerði endanlega út um leikinn á 77.mínútu.

Í uppbótartíma rak Rodrigo Tabata svo síðasta naglann í kistu Al Arabi. Lokatölur 4-0 fyrir Al Sadd.

Aron Einar Gunnarsson lék auðvitað ekki með Al Arabi í dag þar sem hann er staddur hér á landi í landsliðsverkefni og mun leiða lið Íslands út á Laugardalsvöll á morgun gegn Danmörku í Þjóðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×