Innlent

Kölluð út vegna ung­menna í lokaðri laug

Atli Ísleifsson skrifar
Haft var samband við foreldra barnanna.
Haft var samband við foreldra barnanna. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af hópi ungmenna inni á lóð sundlaugar á tíunda tímanum í gærkvöldi.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að öll nema eitt hafi verið komið ofan í laugina þegar lögreglu bar að garði og var málið afgreitt með aðkomu foreldra. Ekki segir hvaða laug um ræðir, nema að hún hafi verið svæði lögreglustöðvar 3 sem nær utan um Kópavog og Breiðholt. Sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu eru nú lokaðar vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Einnig segir frá því að tilkynnt hafi verið um par í annarlegu ástandi í verslun í miðborg Reykjavíkur skömmu eftir klukkan 17 í gær. Var annar aðilinn talinn vera með hníf og ógnandi í hegðun. Fólkið var yfirbugað af lögreglu, bæði handtekin og flutt á lögreglustöð. Annar var auk þess grunaður um innbrot í fyrirtæki í nágrenni verslunarinnar.

Þá segir frá því að um klukkan 18:15 í gær hafi verið tilkynnt um þjófnað á fartölvum úr heimahúsi í miðborginni. Var talið að þjófurinn hafi farið inn á heimilið á meðan húsráðendur voru heima.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×