Fótbolti

Ísland með þaulvanar skyttur ráðist úrslitin í vítakeppni

Sindri Sverrisson skrifar
Hannes Þór Halldórsson varði víti frá Lionel Messi á HM og er eflaust búinn að kynna sér það vel hvert skyttur Rúmena eru líklegar til að spyrna ef til vítakeppni kemur í kvöld.
Hannes Þór Halldórsson varði víti frá Lionel Messi á HM og er eflaust búinn að kynna sér það vel hvert skyttur Rúmena eru líklegar til að spyrna ef til vítakeppni kemur í kvöld. getty/Stefan Matzke

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta gæti þurft að fara í sína fyrstu vítaspyrnukeppni í kvöld, fari svo að jafnt verði gegn Rúmeníu að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu.

Í þessari nýju tegund EM-umspilsins er leikið til þrautar í stökum leik, í stað heima- og útileiks. Þannig verður það einnig í úrslitaleik umspilsins, þar sem Ísland eða Rúmenía fer á útivöll gegn Búlgaríu eða Ungverjalandi 12. nóvember. Því getur vítakeppni ráðið úrslitum.

Ísland á nokkrar góðar vítaskyttur í sínum leikmannahópi, þó að nokkur víti hafi farið í súginn á allra síðustu árum, og Hannes Þór Halldórsson hefur varið nokkur víti á ferlinum, jafnvel frá besta leikmanni sögunnar.

Íslenska liðið æfði vítaspyrnur núna í vikunni en eins og Erik Hamrén benti á í samtali við Vísi er síður en svo það sama að taka víti á æfingu og á ögurstundu, þegar 1,5 milljarður og sæti á EM er í húfi.

Erfitt er að segja til um hverjir tækju vítin fyrir Ísland, ef til þess kæmi, því ómögulegt er að vita hvernig liðið yrði skipað eftir 120 mínútna leik og allt að sex skiptingar (fimm leyfðar í venjulegum leiktíma og ein aukalega í framlengingu).

Það má þó giska á hvaða fimm leikmenn Hamrén myndi velja sem vítaskyttur. Gylfi Þór Sigurðsson er þar líklegastur, Alfreð Finnbogason, Rúnar Már Sigurjónsson og Ari Freyr Skúlason eru þaulvanir því að skora úr vítum fyrir sín félagslið, sem og Viðar Örn Kjartansson og Albert Guðmundsson fái þeir að koma við sögu í leiknum.

Þessir eru því líklegir til að vera treyst fyrir því að taka víti, og þá eru óupptaldir líklegir spyrnumenn á borð við Kolbein Sigþórsson, Hörð Björgvin Magnússon, Jóhann Berg Guðmundsson og Birki Bjarnason, sem reyndar skaut yfir úr víti gegn Englandi fyrir mánuði síðan.

Leikur Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 18.45 í kvöld en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og á Stöð 2. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17.45.


Tengdar fréttir

Afturhvarf til EM í Frakklandi í kvöld?

Ekki er útilokað að Ísland stilli upp nákvæmlega sama byrjunarliði og í leikjum sínum á EM 2016, þegar liðið freistar þess að komast nær næsta Evrópumóti með sigri á Rúmeníu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×