Innlent

Gunn­laugur fannst eftir fjóra mánuði og 50 kíló­metra ferða­lag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gunnlaugur í fangi konunnar sem fann hann í Varmahlíð. Á kortinu er gerð grein fyrir ferðalagi kisa en um 50 kílómetrar eru á milli Hofsóss og Varmahlíðar.
Gunnlaugur í fangi konunnar sem fann hann í Varmahlíð. Á kortinu er gerð grein fyrir ferðalagi kisa en um 50 kílómetrar eru á milli Hofsóss og Varmahlíðar. Samsett

Kötturinn Gunnlaugur, sem búsettur er í grennd við Hofsós, komst heilu og höldnu heim til sín í gær eftir fjóra mánuði á vergangi. Gunnlaugur fannst í Varmahlíð í Skagafirði – um fimmtíu kílómetrum frá heimili sínu.

Kærasti Freyju Amble Gísladóttur hefur átt Gunnlaug í átta ár. Freyja segir í samtali við Vísi að kisi hafi gufað upp um miðjan júní síðastliðinn. Alvanalegt sé að hann hverfi í tvo, þrjá daga, enda mikill veiðiköttur.

„En svo skilaði hann sér ekkert, við fórum til nágrannans að leita en sáum hann hvergi. Svo liðu tveir mánuðir og við vorum búin að gefast upp á því á að finna hann. Þannig að við fórum og fengum okkur kettlinga.“

Gunnlaugur að njóta sín í sveitinni.Aðsend

Í morgun dró þó óvænt til tíðinda.

„Ég vaknaði og kærastinn minn, sem á Gunnlaug, hafði séð færslu á Facebook um týndan kött. Dýralæknirinn okkar hafði deilt henni. Og kærastinn minn segir við mig: „Ég held að Gunnlaugur sé fundinn“.“

Og Gunnlaugur reyndist svo sannarlega hafa komið í leitirnar; um fimmtíu kílómetra frá heimili sínu. Freyja segir að þau gruni sterklega að hann hafi farið upp í bíl og óvart húkkað far.

„Þetta eru um fimmtíu kílómetrar frá okkur á Hofsósi og í Varmahlíð þar sem hann fannst. Og ár og vötn og allt á milli,“ segir Freyja.

Þá virðist sem Gunnlaugi hafi ekki orðið meint af svaðilförinni.

„Hann var aðeins of feitur þegar hann fór frá okkur en er núna í flottu standi,“ segir Freyja og hlær. „Og hann er sérstaklega glaður að vera kominn til baka. En þetta er auðvitað ótrúlegt. Við hefðum aldrei fundið hann ef fólk hefði ekki auglýst hann á netinu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.