Bíó og sjónvarp

Fresta Bond-myndinni til næsta árs

Sylvía Hall skrifar
Daniel Craig fer með hlutverk Bond í síðasta sinn í myndinni.
Daniel Craig fer með hlutverk Bond í síðasta sinn í myndinni. Getty/Hector Vivas

Frumsýning nýjustu James Bond-myndarinnar, No Time to Die, hefur verið frestað til næsta árs. Þetta var tilkynnt í dag en ástæða frestunarinnar er heimsfaraldur kórónuveirunnar.

Upphaflega stóð til að frumsýna kvikmyndina í apríl á þessu ári en ákveðið var að fresta því eftir að kórónuveirufaraldurinn hóf að herja á heimsbyggðina. Þá var ákveðið að myndin yrði frumsýnd þann 12. nóvember næstkomandi en nú hefur verið ákveðið að fresta frumsýningunni enn og aftur og verður hún ekki sýnd í kvikmyndahúsum fyrr enn 2. apríl 2021.

„Við skiljum að frestunin er vonbrigði fyrir aðdáendur okkar, en við hlökkum til þess að deila No Time to Die með ykkur á næsta ári,“ sögðu aðstandendur myndarinnar í tilkynningu í dag.

Næsta Bond-mynd verður sú 25. í röðinni. Daniel Craig mun í sjötta sinn fara með hlutverk James Bond en í myndinni verður hann þó sestur í helgan stein. Þetta er í síðasta sinn sem leikarinn fer með hlutverk James Bond.

Leikkonan Lashana Lynch fer með hlutverk útsendara bresku krúnunnar, 007, þar sem Bond sjálfur er ekki starfandi útsendari og hefur fram að verkefninu notið lífsins á Jamaíka. Fleiri leikarar sem koma fram í kvikmyndinni eru: Rami Malek, Ralph Fiennes, Christoph Waltz, Ana de Armas og Naomie Harris.

Bandaríski leikstjórinn Cary Joji Fukunaga leikstýrir kvikmyndinni en hann er þekktastur fyrir að hafa leikstýrt True Detective þáttum og myndinni Beasts of No Nation.


Tengdar fréttir

Hardy sagður líklegastur sem næsti Bond

Enski leikarinn Tom Hardy er á meðal þeirra sem taldir eru líklegir til að hljóta hið eftirsótta hlutskipti að glæða njósnarann James Bond lífi í næstu kvikmynd um kappann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×