Innlent

280 milljóna fram­lag til að menningar­salurinn á Sel­fossi verði loks kláraður

Atli Ísleifsson skrifar
Innan úr menningarsalnum á Hótel Selfossi. Myndin er tekin á vordögum 2019.
Innan úr menningarsalnum á Hótel Selfossi. Myndin er tekin á vordögum 2019. Vísir/Magnús Hlynur

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að ríkið muni leggja til 281 milljón króna vegna framkvæmda við menningarsalinn á Selfossi sem staðið hefur nær fokheldur í vel á fjórða áratug. Upphæðin skiptist niður á tvö ár og mun ríkið leggja til 140,5 milljónir vegna framkvæmdanna á næsta ári.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Eru framkvæmdirnar sagðar hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Menningarsalinn er að finna á Hótel Selfossi og hefur hann staðið ófullgerður frá árinu 1986. Hann á að taka um þrjú hundruð manns í sæti og í honum er stórt svið og kjallari undir því öllu.

Í frétt Vísis frá síðasta ári sagði frá heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í salinn. Höfðu bæjarfulltrúar í Árborg þá fengið bæði þingmenn og ráðherra í heimsóknir til að sýna þeim salinn í þeirri von að eitthvað færi að gerast í málinu.

Gerðu bæjarfulltrúar ráð fyrir að um 350 til 400 milljónir myndi kosta að koma salnum í stand og sögðust vonast til að slíkt myndi gerast með framlagi frá ríkinu, sem og frá bæjarfélaginu sjálfu.

Allt það helsta um fjárlagafrumvarpið 2021 má finna í Vaktinni á Vísi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×