Innlent

Krónutölugjöld hækki minna en verðbólguspá

Kjartan Kjartansson skrifar
Vörugjald á áfengi hækkar um 2,5% um áramótin samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Vörugjald á áfengi hækkar um 2,5% um áramótin samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Vísir/Vilhelm

Gert er ráð fyrir því að gjöld á áfengi, tóbak og eldsneyti hækki um 2,5% á næsta ári, nokkru undir áætlaðri hækkun vísitölu neysluverðs. Hækkun gjaldanna á að skila ríkissjóði tæpum tveimur milljörðum króna í tekjur.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021 segir að hækkunin á svonefndum krónutölugjöldum verði 2,5% líkt og undanfarin ár í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Það er 0,7 prósentustigum minni hækkun en þau 3,2% sem áætlað er að vísitala neysluverð hækki um á árinu.

Hækkunin nær til vörugjalda á áfengi, tóbak og eldsneyti ásamt bifreiða- og kílómetragjaldi. Þá hækkar gjald í framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald einnig um 2,5% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Almennt vörugjald á bensín hækkar úr 28,75 krónum á lítra í 29,5 krónur og sérstakt vörugjald úr 46,35 kr/l í 47,5 krónur. Olíugjald fer úr 64,4 krónum á lítra í 66 krónur.

Vörugjald á sígarettur hækkar um tæpar þrettán krónur á milli ára og verður 528,8 krónur á pakka. Gjald á bjór verður 129,8 krónur á sentílítra, 117,3 krónur á léttvín og 158,8 krónur á sterkt vín.

Allt það helsta um fjárlagafrumvarpið 2021 má finna í Vaktinni á Vísi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×