Innlent

Reyndi ítrekað að stinga konuna í höfuðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku. Vísir/Vilhelm

33 ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps þegar hann réðst að því er virðist að tilefnislausu á leigusala sinn með hnífi í júní síðastliðnum. Krafist er þriggja milljóna króna í miskabætur og skaðabætur vegna tilfallins kostnaðar vegna árásarinnar.

Fram kemur í ákæru héraðssaksóknara að karlmaðurinn hafi veist að konunni, leigusala sínum, með hníf með 16,5 sentímetra löngu blaði og ítrekað gert tilraun til að stinga hana í höfuð og efri hluta líkama.

Konan náði að verjast árásinni með því að bera fyrir sig hendur og fótlegg með þeim afleiðingum að hún hlaut skurði víða um líkamann.

Varðist alvarlegustu hnífstungunum

Árásin átti sér stað að morgni 15. júní í Reykjavík þegar árásamaðurinn birtist að tilefnislausu í annarlegu ástandi, vopnaður hnífi í húsakynnum konu sem var leigusali hans.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hótaði að hann konunni lífláti og gerði ítrekaðar tilraunir til veita henni lífshættulega áverka á höfði, hálsi og líkama. Henni tókst að verjast alvarlegustu hnífstungunum en hlaut alls ellefu skurði og stungusár í árásinni.

Konan hafði ekki haft nein fyrri kynni af manninum önnur en þau að leigja honum út húsnæði í afar stuttan tíma.

Góðkunningi með hreint sakavottorð

Konunni tókst að gera lögreglu viðvart og var færð á slysadeild en var ekki í lífshættu að sögn lögreglu.

Maðurinn vildi ekki afvopnast þegar lögregla kom á staðinn og var sérsveitin kölluð til sem þurfti að beita táragasi og gúmmískotum til að yfirbuga hann. Maðurinn sem hefur áður komið við sögu lögreglu samkvæmt heimildum fréttastofu var með hreint sakavottorð á þessum tíma.

Maðurinn var handtekinn og færður í gæsluvarðhald þar sem hann hefur verið síðan.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×