Innlent

Uggandi yfir orð­ræðu verka­lýðs­for­ystunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi forseti ASÍ. VÍSIR/VILHELM

Gylfi Arnbjörnsson fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands hefur áhyggjur af stöðu mála á vinnumarkaði. Það sé áhyggjuefni að svo virðist sem hvorki sé traust né talsamband milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar. Þá hugnast honum ekki orðræða verkalýðsforystunnar.

Þetta segir Gylfi í samtali við Morgunblaðið í morgun. Alvarleg staða er komin upp á vinnumarkaði en verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins greinir á um hvort forsendu lífskjarasamningins séu brostnar. Atkvæðagreiðslu SA um uppsögn samningsins, sem átti að hefjast í gær, var frestað til hádegis í dag. Fundað var stíft um stöðu mála í gær og þykir líklegt að aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við stöðunni verði kynntar í dag.

Gylfi Arnbjörnsson segir í Morgunblaðinu í dag að orðræðan úr herbúðum verkalýðshreyfingarinnar og samskipti hennar séu „beinskeyttari“ en áður. Þetta komi honum ekki á óvart. Hann hafi ekki gefið kost á sér til endurkjörs á sínum tíma þar sem hann hafi ekki talið sig geta „staðið fyrir svona stefnu og framgöngu“.

Þá segir Gylfi að það valdi sér áhyggjum að svo virðist sem atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin ræðist ekki við.

„Í þau 30 ár sem ég starfaði var í forgangi að finna leiðir til að hjálpa þeim sem misstu vinnuna. Það á að yfirskyggja allt annað. Þetta reynir mjög á traust í samskiptum aðila og stjórnvalda. Það virðist ekki vera þannig núna,“ segir Gylfi í Morgunblaðinu.

Þá segir hann, inntur eftir hugsanlegum útspilum ríkisstjórnarinnar, að heppilegt gæti verið að lækka tryggingagjald til að koma til móts við atvinnurekendur.

Verði af atkvæðagreiðslu aðildarfyrirtækja SA í dag munu niðurstöður liggja fyrir á hádegi á morgun, miðvikudag. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA hefur ekki viljað gefa upp hvað gæti falist í aðgerðum stjórnvalda.

Drífa Snædal forseti ASÍ sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að frestun á launahækkunum komi ekki til greina. Ekki sé eðlilegt að kjarasamningur launafólks séu notaðir í vegferð atvinnurekenda gagnvart stjórnvöldum.


Tengdar fréttir

Telur að línurnar skýrist í dag eða á morgun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að línurnar skýrist varðandi aðgerðapakka til að koma til móts við þá stöðu sem upp er komin á vinnumarkaði í dag eða á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×