Innlent

Funda í ráðherrabústaðnum fram eftir morgni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stjórnvöld funda með Samtökum atvinnulífsins í morgun.
Stjórnvöld funda með Samtökum atvinnulífsins í morgun. Vísir/vilhelm

Fundað verður í ráðherrabústaðnum fram að hádegi vegna stöðunnar sem upp er komin á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins eiga fund með stjórnvöldum klukkan níu. Til stendur að aðildarfyrirtæki SA greiði atkvæði um hvort rifta eigi lífskjarasamningum í dag.

SA og Alþýðusamband Íslands greinir á um hvort forsendur lífskjarasamninga sem undirritaðir voru í fyrravor séu brostnar. Samkvæmt könnun Maskínu sem lögð var fyrir forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga aðild að SA telja ríflega 90 prósent þeirra ekkert, mjög lítið eða fremur lítið svigrúm til launahækkana um næstu áramót, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun sitja fundi í ráðherrabústaðnum fram eftir morgni vegna stöðunnar sem upp er komin á vinnumarkaði. Þá mættu Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í ráðherrabústaðinn í morgun. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA staðfestir í samtali við Vísi að samtökin eigi fund með stjórnvöldum klukkan níu.

Líkt og áður segir stendur til að aðildarfyrirtæki SA greiði atkvæði um mögulega riftun á lífskjarasamningum síðdegis í dag. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á að liggja fyrir á morgun. Verði uppsögn samningsins samþykkt, og samkomulag ekki náðst fyrir klukkan fjögur á miðvikudag, hyggjast SA segja samningnum upp.

Halldór Benjamín sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að viðræður samtakanna við ASÍ hafi engu skilað. Ábyrgðin liggi nú hjá SA og stjórnvöldum.

„Ég get ekki betur séð en að þeir aðilar séu báðir ásáttir um það að reyna til þrautar að finna lausn sem mildar þetta högg,“ sagði Halldór Benjamín.

Drífa Snædal forseti ASÍ sagði í samtali við Vísi í gærkvöldi að SA hafi viljað byrja allar umræður á þeim forsendum að komast hjá því að standa við kjarasamningana. Það væri eitthvað sem verkalýðshreyfingin gæti ekki tekið þátt í.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×