Innlent

Fara fram á rannsókn á sóttvarnaraðgerðum yfirvalda

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Smári McCarthy kallaði eftir rannsókn á sóttvarnaraðgerðum yfirvalda í tengslum við kórónuveirufaraldurinn á aðalfundi Pírata, sem lauk nú síðdegis. 
Smári McCarthy kallaði eftir rannsókn á sóttvarnaraðgerðum yfirvalda í tengslum við kórónuveirufaraldurinn á aðalfundi Pírata, sem lauk nú síðdegis.  Vísir/Hanna

Þingmenn Pírata ætla að kalla eftir rannsókn á aðgerðum stjórnvalda í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir tilganginn fyrst og fremst svo hægt sé að draga lærdóm af því sem á undan er gengið.

„Við ætlum að kalla eftir því að farið verði í rannsókn á öllum aðgerðum stjórnvalda í tengslum við Covid. Og það snýst bara um það að athuga hvort hlutirnir hafi verið rétt gerðir, með tilliti til mannréttinda og annarra þátta,“ segir Smári. Þó séu engar efasemdir um að svo hafi ekki verið.

„Mér finnst allt hafa gengið mjög vel en vandinn er að það eru þúsundir manna um allt Ísland sem hafa orðið fyrir áhrifum af þessu og við vitum ekki, fyrr en við förum að kanna þetta.“

Smári bendir á að þríeykið svokallaða hafi sjálft óskað eftir því að unnin verði úttekt á þeim aðgerðum sem gripið hafi verið til. „Við köllum eftir þessu því við höfum getu til þess að leggja fram beiðni um skýrslur, lagt fram tillögur um að búin verði til rannsóknarnefnd og aðgang að þessum þinglegu ferlum. Við værum í rauninni ekki að leggja þetta til ef þessi bolti hefði verið gripinn af ríkisstjórninni, en það hefur ekkert heyrst frá þeim.“

Hverju rannsóknin gæti skilað sé alls óvíst en að fyrst og fremst sé hægt að læra af því ástandi sem nú ríki. „Rannsóknin gæti skilað betri verkferlum, betri innsýn inn í það hversu langt má ganga á mannréttindi fólks þegar hættur steðja að í samfélaginu, svo dæmi sé tekið. Ég geri ráð fyrir því að niðurstaðan verði einhvern veginn á þá leið að allt hafi verið rosalega vel gert, en svo gæti hún líka skilað af sér atriðum um eitthvað sem mætti bæta í framtíðinni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×