Innlent

Sóttvarnalög verði endurskoðuð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir. Vísir/vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur falið starfshópi að semja drög að frumvarpi til breytinga á sóttvarnalögum. Hópurinn er þegar tekinn til starfa. Tekin verða til skoðunar og skýrð nánar ákvæði núgildandi laga um opinberar sóttvarnaráðstafanir og valdheimildir stjórnvalda þar að lútandi. Við endurskoðunina verður horft til reynslu síðustu mánaða af Covid-19. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Dr. Páll Hreinsson hefur að beiðni forsætisráðherra unnið álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarna samkvæmt sóttvarnalögum og verður hún meðal annars lögð til grundvallar við vinnu starfshópsins.

Á meðal þess sem fram kemur í álitsgerð Páls er að þeim mun smitnæmari og hættulegri sem smitsjúkdómur er, því víðara svigrúm hafi stjórnvöld til að bregðast við til verndar lífi og heilsu manna.

Ýmsar sóttvarnaráðstafanir takmarki óhjákvæmilega mannréttindi sem varin eru af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Hið sama gildi um réttindi ein­staklinga og fyrirtækja samkvæmt EES-samningnum.

Formaður starfshóps heilbrigðisráðherra er Sigurður Kári Árnason. Aðrir fulltrúar eru Dagrún Hálfdánardóttir, tilnefnd af embætti landlæknis, Inga Þórey Óskarsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu, Haraldur Briem, tilnefndur af sóttvarnalækni, Ólafur Baldursson, tilnefndur af Landspítala, Sigríður Dóra Magnúsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Víðir Reynisson, tilnefndur af embætti ríkislögreglustjóra. Starfsmaður hópsins er Rögnvaldur G. Gunnarsson.

Starfshópurinn skal skila ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. desember næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×