Innlent

Dæmi um að fólk hafi hætt við sýnatöku á Suðurlandsbrautinni vegna sóttkvíða

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rúmlega þrjú þúsund manns héldu í sýnatöku á Suðurlandsbraut 34 í fyrradag. 
Rúmlega þrjú þúsund manns héldu í sýnatöku á Suðurlandsbraut 34 í fyrradag.  Vísir/vilhelm

Í fyrradag var met slegið í fjölda sýna á einum degi. Um var að ræða sérstakt átak sóttvarnayfirvalda í sýnatöku til að reyna að koma böndum á kórónuveiruna sem virðist í mikilli útbreiðslu á höfuðborgarsvæðinu.

Áhersla var lögð á að skima fólk sem hafði þekkt einkenni Covid-19 sjúkdómsins. Rúmlega þrjú þúsund manns héldu í sýnatöku á Suðurlandsbraut 34. Um tuttugu starfsmenn voru á vakt á hverjum tíma frá átta að morgni til átta að kvöldi.

Fólk sem hugði á sýnatöku beið í röð sem „bylgjaðist“ um bílastæðið á Suðurlandsbrautinni. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum var spurður hvort aðstæður væru tryggar með tilliti til sóttvarna og hvort sniðugt hefði verið að stefna svo mörgu veiku fólki saman á einn stað undir sama þak.

„Heilsugæslan gengur þannig til verks að þau telja að þetta sé alveg tryggt. Við myndum aldrei taka neina sénsa með slíkt. Það er haldið 2 metra bili í röðinni og gengið þannig fram að það eigi ekki að vera smithætta á milli einstaklinga sem eru að koma þarna í sýnatöku.“

En hefurðu heyrt af því að fólk hafi hætt við sýnatöku á Suðurlandsbrautinni vegna sóttkvíða?

„Jú við höfum heyrt um það en ekki síðustu daga. Við heyrðum aðeins af því þegar þetta var að fara meira í gang á Suðurlandsbrautinni að einhverjir væru óöruggir en við höfum ekki orðið vör við það síðustu daga að fólk hafi ekki mætt.“


Tengdar fréttir

Gæti tekið nokkurn tíma að ná utan um þessa bylgju

Þrjátíu og átta voru greindir með kórónuveiruna í gær og um helmingur þeirra var ekki í sóttkví. Sóttvarnalæknir telur að það muni taka nokkurn tíma að ná utan um þessa bylgju faraldursins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.