Innlent

Setur spurningar­merki við hvort VG sé stjórn­tækur flokkur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen setur spurningarmerki við það hvort VG sé stjórntækur flokkur.
Sigríður Á. Andersen setur spurningarmerki við það hvort VG sé stjórntækur flokkur. Vísir/Vilhelm

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist setja spurningarmerki við það hvort Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé stjórntækur flokkur. Það hafi verið mikið „rúmrusk“ þegar tveir þingmenn VG hafi lýst því yfir að styðja ekki ríkisstjórnina.

„Það voru fimm þingmenn VG sem gengu úr skaftinu í síðustu ríkisstjórn VG sem var þá til vinstri, sem var samstarf með Samfylkingunni. Í tveimur ríkisstjórnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur gerst í bæði skiptin að þingmenn segja sig úr flokknum eða þingflokknum. Fimm í vinstri stjórninni og tveir núna,“ sagði Sigríður í Silfrinu á RÚV í morgun.

Hún segir þetta að sjálfsögðu erfitt fyrir ríkisstjórnarflokkana alla og hafi Sjálfstæðisflokkurinn horft á það í forundran þegar tveir þingmenn samstarfsflokks í ríkisstjórn hafi ekki séð sér fært að styðja ríkisstjórnina.

Rósa Björk sagði sig úr VG vegna máls egypsku fjölskyldunnar fyrir helgi. Vísir/Vilhelm

„Þetta hlýtur að vera til framtíðar, myndi maður segja ef maður væri stjórnmálaskýrandi eða álitsgjafi, til umhugsunar hvort slík hreyfing sé stjórntæk yfir höfuð í ríkisstjórnarsamstarfi þegar reynslan er þessi,“ sagði hún. „Fimm þingmenn í vinstri ríkisstjórn, tveir þingmenn í hægri-mið ríkisstjórn geti ekki tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka sem sagði sig úr VG fyrir helgi, segir að mál egypsku fjölskyldunnar hafi reynst hreyfingunni erfið. Eins og áður hefur komið fram sagði hún sig úr flokknum vegna „harðlínustefnu“ ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda. Hún hafi ekki getað setið lengur undir því.

„Ég myndi segja að þetta mál, og þessi mál sem hafa komið í fjölmiðla, hafi reynst hreyfingunni erfið, félögum í VG erfið og kjósendum líka erfið,“ sagði hún í Silfrinu.

„Þessi ásýnd VG á þinginu núna ætti að vera áhyggjuefni fyrir hreyfinguna,“ sagði Sigríður.


Tengdar fréttir

Hamskipti Vinstri grænna

Hinn almenni flokksmaður í Vg er pollrólegur og sáttur við stjórnarsamstarfið. Í morgun hafði enginn sagt sig úr flokknum en einn nýr bæst í hópinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.