Innlent

Búin undir það að smit gætu raskað sam­ræmdu prófunum

Sylvía Hall skrifar
Nemandi í 7. bekk í Melaskóla greindist með kórónuveirusmit í gær.
Nemandi í 7. bekk í Melaskóla greindist með kórónuveirusmit í gær. Vísir/Vilhelm

Heill bekkur í 7. bekk í Melaskóla er nú í sóttkví eftir að smit greindist hjá nemanda í gær. Samræmd könnunarpróf fara fram á fimmtudag og föstudag í næstu viku en nemendur bekkjarins voru skikkaðir í sóttkví til 24. september.

Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, segir stofnunina hafa verið búna undir að slíkt gæti komið upp. Viðbragðsáætlun í þremur liðum hafi verið tilbúin til þess að bregðast við slíkum aðstæðum, en þeir nemendur sem geta ekki þreytt prófin í næstu viku munu taka þau 12. og 13. október.

„Við vorum algjörlega tilbúin. Við vorum búin að gera viðbragðsáætlun og það er að koma í ljós að það var gott að við vorum búin að því,“ segir Sverrir í samtali við Vísi.

Að sögn Sverris taka nemendurnir sömu próf og verða lögð fyrir í næstu viku, en tvær prófútgáfur eru lagðar fyrir hverju sinni.

„Ef það er heill skóli sem fer ekki í prófið þá fær hann sömu próf og hinir krakkarnir. Við erum með tvær prófútgáfur og við erum líka með aðferðir til þess að breyta svarmöguleikum og fleira í þeim dúr.“

Hann segir mikilvægt að hafa í huga að samræmdu prófin eru einungis könnunarpróf og tæki til þess að fá betri hugmynd um stöðu nemenda.

„Þetta er ein leið að fjölbreyttu námsmati í skólum og þetta er til að hjálpa börnum til þess að sjá hvar þau standa. Þetta hjálpar kennurum að kenna í samræmi við það og vera með íhlutun.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×