Innlent

Varahéraðssaksóknari og lögreglustjóri Vesturlands vilja á Suðurnesin

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari er á meðal umsækjenda um stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari er á meðal umsækjenda um stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum. Vísir/Vilhelm

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Vesturlandi, eru á meðal fimm umsækjenda um stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Þá er Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og staðgengill lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins einnig á meðal umsækjenda um stöðuna á Suðurnesjum.

Sex manns sækjast síðan eftir stöðu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, meðal annars þau Arndís Bára Ingimarsdóttir, sem nú er settur lögreglustjóri í Eyjum, og Grímur Hergeirsson sem var um tíma skipaður lögreglustjóri á Suðurlandi.

Greint er frá umsækjendunum á vef dómsmálaráðuneytisins. Í sumar var greint frá ólgu innan lögreglunnar á Suðurnesjum sem tengdist störfum þáverandi lögreglustjóra, Ólafs Helga Kjartanssonar.

Þannig greindi Vísir frá því að fjórir af sjö æðstu yfirmönnum embættisins ynnu gegn Ólafi Helga og héldu upplýsingum frá honum. Þá hefðu starfsmenn kvartað undan framkomu Ólafs Helga og hópur yfirmanna jafnframt kvartað undan honum til dómsmálaráðuneytisins.

Fjölmiðlar greindu svo frá því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hefði boðið Ólafi að taka við stöðu lögreglustjórans í Eyjum en það mætti mótstöðu í bæjarfélaginu, meðal annars frá Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra. Var kallað eftir því að staðan yrði auglýst.

Að lokum fór það svo að Ólafur Helgi var fluttur yfir í dómsmálaráðuneytið þar sem hann starfar sem sérfræðingur í málefnum landamæra.

Stöður lögreglustjóranna á Suðurnesjum og í Eyjum voru svo auglýstar og rann umsóknarfrestur út í gær. Umsækjendurnir eru eftirfarandi:

Umsækjendur um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum:

 • Daniel Johnson
 • Hulda Elsa Björgvinsdóttir
 • Kolbrún Benediktsdóttir
 • Súsanna Björg Fróðadóttir
 • Úlfar Lúðvíksson

Umsækjendur um embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum:

 • Arndís Bára Ingimarsdóttir
 • Daníel Johnson
 • Grímur Hergeirsson
 • Helgi Jensson
 • Kristmundur Stefán Einarsson
 • Logi Kjartansson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.